Fótbolti

Victor á bekknum en Henry í stuði í sigri Red Bulls

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Henry fagnar marki á Red Bull leikvanginum í kvöld.
Henry fagnar marki á Red Bull leikvanginum í kvöld. Nordic Photos / Getty
Guðlaugur Victor Pálsson sat allan tímann á varamannabekknum þegar New York Red Bulls vann 4-1 sigur á Colorado Rapids í MLS-deildinni í kvöld.

Heimamenn skoruðu tvívegis á fyrstu sex mínútum leiksins og komu gestunum í opna skjöldu. Fyrst skoraði Henry með vinstri fótar skoti úr vítateignum. Skömmu síðar lagði hann upp mark fyrir Kenny Cooper, kollega sinn í sókninni.

Henry var aftur á ferðinni á 53. mínútu þegar hægri fótar skot hans úr teignum söng neðst í markhorninu. Omar Cummings minnkaði muninn með langskoti á 77. mínútu.

Það var síðan Kenny Cooper sem skoraði síðasta mark leiksins af stuttu færi og úrslitin 4-1 fyrir heimamenn frá New Jersey.

Guðlaugur Victor sat sem fastast á bekknum eins og hann hafði reiknað með eftir slaka frammistöðu að eigin mati í tapinu gegn Real Salt Lake í Utah um síðustu helgi.

Þetta var fyrsti sigur Red Bulls á tímabilinu en það tapaði einnig opnunarleik tímabilsins á útivelli gegn San Jose.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×