Erlent

Breskir ráðamenn hafna samanburði við Ítalíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkomubann hefur verið í gildi á Bretlandi í um sex vikur.
Samkomubann hefur verið í gildi á Bretlandi í um sex vikur. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Breskir ráðherrar segja ekki hægt að bera saman Bretland og Ítalíu þegar kemur að heimsfaraldri nýju kórónuveirunnar. Bretland er nú það Evrópuland þar sem næst flestir hafa dáið og er á eftir Ítalíu. Alls hafa 28.446 dáið á Bretlandi en 28.884 á Ítalíu, samkvæmt tölum sem starfsmenn Johns Hopkins háskólans hafa tekið saman.

Á upplýsingafundi í dag sagði ráðherrann Michael Gove að ríkisstjórnin hafi gert mistök í upphafi faraldursins. Hann sagði að þegar búið væri að ná tökum á faraldrinum þyrfti að spyrja alvarlegra spurninga varðandi það hvað Bretar geti lært af því hvernig brugðist var við faraldrinum í upphafi hans.

„Án efa mun þessi ríkisstjórn, eins og aðra ríkisstjórnir, hafa gert mistök,“ hefur Sky News eftir Gove.

Einnig kom fram á fundinnum að um þessar mundir væru fleiri að jafna sig af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, en smituðust.

Boris Johnson, forsætisráðherra, mun kynna á fimmtudaginn tillögur sínar um það hvernig draga megi úr félagsforðun á Bretlandi en Gove sagði að íbúar þyrftu eflaust að búa við einhverjar takmarkanir þar til búið væri að þróa bóluefni.

Mikill meirihluti Breta segir þó ekki tímabært að afnema félagsforðun.

Sjá einnig: Fáir Bretar vilja draga úr félagsforðun

Ríkisstjórn Johnson hefur verið gagnrýnd fyrir seinagang í upphafi faraldursins. Grant Shapps, samgönguráðherra, sagði ótækt að mikill fjöldi látinna á Bretlandi sýndi að ríkisstjórnin hefði haldið illa á málum. Málið sé mun flóknara en að bera saman fjölda látinna og raunin muni ekki vera ljós fyrr en eftir minnst ár, samkvæmt frétt Reuters.

Aðrir embættismenn hafa slegið á svipaða strengi. Yfirmaður Hagstofu Bretlands hefur til að mynda sagt að mikið ósamræmi geti verið á milli ríkja varðandi það hvernig fjöldi látinna er tekinn saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×