Innlent

Þráðlaust net komið í Hörpuna

Lokið hefur verið við uppsetningu á þráðlausu neti í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Um er að ræða eitt af stærri þráðlausu netkerfum á landinu en Harpan er um 28 þúsund fermetrar að stærð.

Þráðlausa netið verður einkum ætlað gestum og viðskiptavinum hússins, svo sem í fyrirlestra- og fundarsölum

Upplýsingafyrirtækið Nýherji sá um uppsetninguna, en rekstrarfélag Hörpunnar hefur einnig samið við Nýherja um kaup á tölvu- og tæknibúnaði fyrir starfsemina.

Um er að ræða „Rent a Prent" prentlausn sem gerir Hörpunni meðal annars kleift að prenta út ráðstefnugögn fyrir skipuleggjendur ráðstefna. Ennfremur voru innleiddar Lenovo tölvur, Cisco netbúnaður, Canon prentbúnaður og APC varaaflgjafar fyrir starfsemina. Þá verður símkerfi tónlistarhússins hýst í Avaya IP símstöð Nýherja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hörpu.

Rekstrarfélag Hörpunnar ákvað að velja búnað og lausnir frá Nýherja eftir ítarlega verðkönnun þar sem þær þóttu hagkvæmastar og féllu vel að rekstri tölvukerfa Hörpunnar.

„Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpan þarf að reiða sig á hnökralausan rekstur upplýsingatæknikerfa og tölvu- og tæknibúnað fyrir starfsfólk og alla þá gesti og viðskiptavini sem eiga eftir að sækja húsið heim. Þess vegna leggjum við áherslu á hátt þjónustustig og ennfremur er mikilvægt að allur kostnaður sé fastur og fyrirsjáanlegur," segir Höskuldur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Hörpu.

„Með útvistun tölvukerfa er hægt að auka öryggi og tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu. Þá geta fyrirtæki skapað sér mikinn fjárhagslegan ávinning með því að úthýsa tölvukerfum í stað þess að eiga og reka sitt eigið," segir Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri Rekstrarlausna Nýherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×