Ragna Ingólfsdóttir komst í morgun í undanúrslit á alþjóðlegu badmintonmóti í Grikklandi. Hún vann Karin Schnaase frá Þýskalandi örugglega í fjórðungsúrslitunum, 21-10 og 21-13.
Ragna var fyrir mótið sett í þriðja sætið í styrkleikaröðun þátttakenda en hún mætir á morgun Nhung Le frá Tælandi í undanúrslitum.
Le lagði í morgun Grace Daniel frá Nígeríu í fjórðungsúrslitum en Daniel lagði í 16-liða úrslitum næststerkasta keppanda mótsins, Agnese Allegrini frá Ítalíu.
Le er í 93. sæti heimslistans en Ragna er í 55. sæti á sama lista.
Sá keppendi sem er talin sterkastur, Petya Nedelcheva frá Búlgaríu, hefur ekki átt í neinum vandræðum með að komast í undanúrslitin og unnið alla sína leiki örugglega.
Hún mætir Karinu Jörgensen frá Danmörku í undanúrslitunum og sigurvegarinn í þeirri viðureign mætir annað hvort Rögnu eða Le í úrslitaviðureigninni á laugardaginn.