Innlent

Frjálslyndir segja innflytjendamál ekki mega vera "tabú"

Leiðtogar frjálslyndra segja umræður um málefni innflytjenda ekki mega vera tabú hjá stjórnmálamönnum. Ríkisvaldið er harðlega gagnrýnt fyrir orð en engar gjörðir í málefnum nýbúa, en ekki er gert ráð fyrir fjárframlögum til málaflokksins í fjárlögum þessa árs.

Margrét Sverrisdóttir framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins segir andstæðinga reyna að setja stimpil kynþáttafordóma á flokkinn vegna afstöðu til innflytjendamála. Hún segir umræður um málefnið vera "tabú" meðal stjórnmálamanna vegna þess hversu viðkvæmt það er.

Málefni innflytjenda voru til umræðu á Alþingi í dag, en þar gagnrýndi Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndra aðgerðarleysi ríkisvaldsins.

Um það bil tíu nefndir hafa verið settar á laggirnar innan stjórnkerfisins til að finna leiðir til þess að bæta málefni innflytjenda. Þær hafa skilað góðum niðurstöðum, en fjármagn hefur ekki fylgt til að framkvæma hugmyndirnar.

Á síðustu fjárlögum var ekki gert ráð fyrir framlagi til innflytjendamála. Innflytjendaráð var hins vegar stofnað í byrjun ársins en eina fjármagnið sem það fær er til að stuðla að aðlögun flóttamanna á Íslandi.

Fjárframlög borgarinnar til Alþjóðahúss, sem veitir innflytjendum ýmsa þjónustu vegna aðlögunar hér, hafa verið skorin niður um þriðjung. Einar Skúlason framkvæmdastjóri hússins segir að þjónustuna þurfi að bæta mikið, mikil vinna hafi farið í stefnumótun en hana þurfi að framkvæma.

Margrét segir hrikta í stoðum kerfisins og skóla og velferðakerfið engan veginn standa undir þessari fjölgun innflytjenda. Hún óttast stéttaskiptingu í samfélaginu verði ekki gripið í taumana strax.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×