Innlent

Fréttaskýring: Reikningur samfélags sem er í fjárhagslegum bata

Hagfræðingur við Háskóla Íslands segir ríkisreikning bera það með sér að samfélagið sé í bata. Ef ekkert óvænt gerist erlendis sé hremmingunum að ljúka.fréttablaðið/ernir
Hagfræðingur við Háskóla Íslands segir ríkisreikning bera það með sér að samfélagið sé í bata. Ef ekkert óvænt gerist erlendis sé hremmingunum að ljúka.fréttablaðið/ernir
Er kreppunni lokið?

Mánaðaruppgjör A-hluta ríkissjóðs, sem birt var í gær, sýnir að á fyrstu sex mánuðum ársins námu tekjur ríkissjóðs 251,9 milljörðum króna. Það eru 23,2 milljörðum hærri tekjur en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Á sama tímabili voru útgjöld undir áætlun um 6,4 milljarða, en gjöld ríkisins námu alls 568,6 milljörðum króna.

Ríkisreikningur sýnir því ágæta stöðu. Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir reikninginn líta ágætlega út.

„Sá efnahagsbati sem menn hafa verið að tala um að megi glögglega sjá í þjóðhagsreikningum er einfaldlega farinn að skila sér inn í ríkisreikninginn. Það er ekkert eitt sem hægt er að benda á, heldur er öll tekjuhliðin upp á við.“

Daði Már segir einnig að jákvæður árangur hafi náðst á gjaldahliðinni. „Ég held þó að það ætti að taka þeim tölum með smá fyrirvara vegna þess að milli-uppgjör eru oft háð tilviljanakenndum sveiflum. Það er erfitt að segja fyrir um það hvort síðari helmingur ársins muni ekki bera þess merki að fyrri helmingurinn líti vel út,“ segir Daði.

Þar vísar hann til þess að ef eitthvað líti sérstaklega vel út á fyrri helmingi geti það verið vegna þess að töf hafi orðið á útgjaldaliðum og þeir eftir að koma fram síðar. „Ég mundi því ekki segja að þetta væru óyggjandi merki um að aðhald í ríkisrekstri sé farið að skila gríðarlegum árangri fyrr en ég sé lokatölurnar.“

Daði segir að tekjur ríkisins aukist greinilega í takt við batnandi afkomu í samfélaginu, meiri umsvif og hagvöxt. En er kreppunni lokið?

„Þetta er reikningur samfélags sem er í bata. Við getum sagt að merki þess séu mjög víða og mjög greinileg. Ef ekkert óvænt gerist erlendis þá horfir í það já, að þessum hremmingum sé að ljúka,“ segir Daði. Forgangsverkefni sé hins vegar að ná jákvæðum frumjöfnuði.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×