Erlent

Trump ver stefnu sína í innflytjendamálum

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump mun ræða við þingmenn Repúblikana um nýtt frumvarp sem myndi slaka á stefnu stjórnar hans.
Donald Trump mun ræða við þingmenn Repúblikana um nýtt frumvarp sem myndi slaka á stefnu stjórnar hans. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varið þá stefnu stjórnar sinnar sem leitt hefur til aðskilnaðar þúsunda barna við foreldra sína á landamærunum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Þetta kom fram í máli forsetans á viðskiptaráðstefnu fyrr í dag þar sem hann sagði nauðsynlegt að skilja börn frá foreldrum sínum sem hafi verið fangelsuð fyrir að hafa ólöglega farið yfir landamærin til Bandaríkjanna frá Mexíkó.

Fjölmargir hafa fordæmt stefnu forsetans á síðustu dögum. Þannig lýsti utanríkisráðherra Mexíkó, Luis Videgaray Caso, því yfir í dag að stefna Bandaríkjastjórnar væri í senn grimmdarleg og ómannúðleg.

Fyrirhugaður er fundur Trump og þingmanna Repúblikana þar sem ræða á frumvarp sem myndi slaka á núgildandi stefnu stjórnarinnar.

„Ég vil ekki að börn séu tekin frá foreldrum sínum,“ sagði forsetinn. Hann sagði þó nauðsynlegt að fjarlægja börnin þegar foreldrar, sem hafi komið inn í landið með ólöglegum hætti, eru sóttir til saka.

Forsetinn sagðist vilja binda enda á „krísunni við landamærin“ með því að veita landamæravörðum heimild til að „taka til fanga og fjarlægja“ heilu fjölskyldurnar sem hafi komið ólöglega yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Talsmaður bandarískra yfirvalda segir að 2.342 börn hafi verið tekin frá 2.206 foreldrum á tímabilinu 5. maí til 9. júní.

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions, hafnaði í gærkvöldi fullyrðingum um að stöðvar þar sem börnum er haldið frá foreldrum sínum og Bandaríkjastjórn starfræki, líkist einangrunarbúðum nasista.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×