Innlent

Markvisst unnið að því að útrýma mávi af tjörninni

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hvetur fólk til að draga úr brauðgjöfum á tjörninni í júní og júlí.
Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hvetur fólk til að draga úr brauðgjöfum á tjörninni í júní og júlí. Mynd/ Visir.is
Andavarp á tjörninni hefur ekki tekist vel í ár, að sögn Guðmundar B. Friðrikssonar, skrifstofustjóra hjá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar. Fáir ungar hafa komist á legg. Ástæðurnar eru þær að lítið er af æti við tjörnina og að mávurinn hefur étið ungana.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar ætlar að setja upp veggspjöld á næstu dögum á ýmsum opinberum stöðum í Reykjavík með skilaboðum um að draga megi úr uppgangi máva með bættri umgengi og færri brauðgjöfum.

Guðmundur ráðleggur fólki að draga úr brauðgjöf við Tjörnina í júní og júlí á meðan andarungar eru að komast á legg. Hann segir að ungarnir borði skordýr sem lifi í tjörninni en ekki brauð. Bættur frágangur á úrgangi skipti einnig miklu máli ef sporna eigi við ágangi máva. Að sögn Guðmundar ætti enginn að skilja eftir matarleifar á víðavangi.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun jafnframt senda bréf til veitinga- og skyndibitastaða í borginni þar sem meðal annars eru ábendingar um að gæta þess að hafa ruslagáma og tunnur ævinlega lokaða og að úrgangur liggi ekki við ruslagáma á lóð fyrirtækja.

Borgaryfirvöld hafa einnig unnið markvisst að því að fækka mávi á tjörninni með skotveiði, en því fylgir alltaf sú hætta að annað fuglalíf sé truflað, segir Guðmundur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×