Erlent

Ástand al-Sadrs óvíst

Sjítaklerkurinn Moqtada al-Sadr, foringi uppreisnarmanna sjíta í Írak, særðist í bardögum í Najaf í nótt að sögn talsmanna hans. Innanríkisráðherra bráðabirgðastjórnar Íraks segir þessar upplýsingar hins vegar rangar. Í yfirlýsingu frá talsmönnum al-Sadrs segir að hann hafi hlotið þrjú sár í bardögum við hinn umfangsmikla grafreit sjítamúslíma við grafhýsi Alís um sjöleytið í morgun að staðartíma, eða um þrjú í nótt að íslenskum tíma. Aðstoðarmaður Sadrs, Sheikh Ahmed al-Shaibani, segir að Sadr hafi hvatt liðsmenn sína til að halda hinu heilaga stríði áfram, þó að hann félli í bardaga. Innanríkisráðherra Íraks segir al-Sadr hins vegar ekki hafa særst í nótt og að hann sé í viðræðum við stjórnvöld í Írak um að yfirgefa bænahús í miðborg Najaf þar sem uppreisnarmenn hafa hreiðrað um sig. Innanríkisráðherrann segir að al-Sadr verði ekki handtekinn, yfirgefi hann bænahúsið, og bætir við að vopnahlé hafi verið komið á eftir átökin í gær. Af al-Sadr er það annað að frétta að hann hefur biðlað til uppreisnarmanna að láta breska blaðamanninn, sem rænt var í morgun, af hendi. Í morgun réðust 30 byssumenn inn á hótel blaðamannsins í Basra og rændu honum þaðan. Þeir hafa síðan hótað honum lífláti, fari herir Bandaríkjamanna ekki frá Najaf innan sólahrings.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×