Erlent

Hjónabandsráðgjöf vinsælli vegna kreppunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vaxandi áhyggjur af efnahagsmálum og aukið atvinnuleysi hefur leitt til þess að 40% fleiri kaþólsk pör á Írlandi leita sér hjónabandsráðgjafar, samkvæmt upplýsingum sem AFP fréttastofan hefur frá Kaþólsku kirkjunni.

„Kreppan hefur mikil og skjótvirk áhrif á hjónabandið og fjölskylduna," sagði John Farrelly, yfirmaður hjónabandsráðgjafar hjá Kaþólsku kirkjunni. „Maður þarf bara að líta til þess að á fyrsta fjórðungi ársins 2007 var einungis fjórðungur þeirra karla sem leituðu til okkar atvinnulausir en þetta hefur nánast þrefaldast," segir Farelly

Í skýrslu Hagfræði- og félagsvísindastofnunar Írlands, sem kom út í síðustu viku, kemur fram að efnahagur landsins hefur ekki verið verri síðan í kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar. Spáð er að verg landsframleiðsla Írlands dragist saman um 11,6% á árunum 2008 - 2010.

Hjónabandsráðgjöf Kaþólsku kirkjunnar segir að árið 1997 hafi 20% hjóna leitað aðstoðar vegna fjárhagsvanda, en hlutfallið hafi vaxið í 25% í fyrra. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 hafi hlutfallið verið komið í 28%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×