Erlent

Japanir búa sig undir eldflaugaskot frá Norður-Kóreu

Óli Tynes skrifar
Japanskur tundurspillir.
Japanskur tundurspillir.

Japanir hafa sent tvo tundurspilla út á sundið á milli Norður-Kóreu og Japans. Þeir eru búnir fullkomnustu loftvarnaeldflaugum sem völ er á.

Norður-Kóreumenn hafa tilkynnt að einhverntíma dagana fjórða til áttunda apríl muni þeir skjóta langdrægri eldflaug út á Kyrrahafið.

Flaugin mun fara yfir Japan og það líst Japönum illa á. Samkvæmt samþykkt Sameinuðu þjóðanna er Norður-Kóreu raunar bannað að skjóta langdrægum eldflaugum.

En Norður-Kóreumenn gera sér enga rellu út af alþjóðlegum samskiptum.

Það flækir þó málið að samkvæmt stjórnarskrá Japans mega þeir ekki skjóta niður eldflaugar annarra þjóða nema þær beinlínis ógni þeim sjálfum.

Það er því ekki nema það sé fyrirsjáanlegt að norður-kóreska eldflaugin lendi á japönsku landi sem þeir mega skjóta hana niður.

Það mun sjást fljótlega eftir að eldflauginni verður skotið á loft hvort hún fer á rétta braut eða hvort hætta sé á að hún lendi á japönsku landi.

Tundurspillarnir munu þá hafa tíu mínútur til þess að skjóta hana niður.

Það ætti nú að duga þeim þar sem loftvarnaeldflaugar þeirra ná áttföldum hljóðhraða. Þeir þurfa auðvitað að hitta í mark, en lítill vafi er á að það muni takast.

Norður-Kóreumenn segja að ef eldflaug þeirra verði skotin niður þýði það stríð við Japan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×