Innlent

Nítján aðgerðum á gjörgæslu frestað á árinu vegna þrengsla

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Þegar gjörgæsludeild Landspítalans er full er algengast að aðgerð sé frestað um einn til tvo daga en stökum sinnum lengur.
Þegar gjörgæsludeild Landspítalans er full er algengast að aðgerð sé frestað um einn til tvo daga en stökum sinnum lengur. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Frá áramótum hefur þurft að fresta nítján aðgerðum vegna plássleysis á gjörgæsludeildum Landspítalans á Hringbraut og í Fossvogi.

Fimmtán aðgerðum var frestað á Hringbraut og fjórum í Fossvogi. „Það eru tvær aðgerðir á mánuði að meðaltali sem frestast. Sjö pláss eru á gjörgæsludeildinni í Fossvogi og sjö á Hringbraut en síðast var aðgerð frestað á mánudaginn vegna þess að deildin var full,“ segir Alma D. Möller, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítalans.

Alma D. Möller
Algengast er að aðgerð sé frestað um einn til tvo daga en stöku sinnum lengur. 

Alma segir að alltaf sé reynt að framkvæma aðgerð eins fljótt og auðið er. „Þetta er úrræði sem okkur finnst mjög leitt að þurfa að grípa til en það er okkar mat að ef aðgerð getur beðið sjúklingsins vegna sé það betra að bíða með hana í einhverja daga en að sjúklingur þurfi að leggjast inn á yfirfulla deild.“

Alma segir að stöðugt sé leitað leiða til að hindra að fresta þurfi aðgerðum og hvert einasta tilvik sé metið vandlega af skurðlæknum og gjörgæslulæknum. 

„Unnið er að því að tryggja fjármuni til að efla mönnun frekar, meðal annars með því að mennta fleiri gjörgæsluhjúkrunarfræðinga til að hægt verði að eiga alltaf frátekið pláss fyrir slíkar aðgerðir.“

Hún segir þetta vera vandamál sem allar gjörgæsludeildir heims glími við en það geti alltaf skapast álagstoppar þar sem slíkar deildir fyllist, til dæmis vegna slysa eða faraldra. 

„Ef það verður til dæmis eitt stórt slys þá hefur það mikil áhrif,“ segir Alma.

Algengast er að deildin fyllist í janúar og febrúar þegar inflúensa og aðrar pestir herja á landann. Unnið er að því að styrkja mönnum á deildinni og hefur ástandið verið óvenjugott í sumar að sögn Ölmu. „Frá 1. júní hefur þurft að fresta tveimur aðgerðum,“ segir Alma og bætir við að ástæða þess að frestun aðgerða sem útheimti gjörgæslu sé algengari á Hringbraut sé sú að fjöldi aðgerða þar sem þurfi gjörgæsluinnlögn sé meiri þar, til dæmis hjartaaðgerðir og stórar kviðarholsaðgerðir. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. ágúst 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×