Innlent

Héraðsdómur segir ákæruvald saksóknara efnahagsbrota lögleysu

Héraðsdómur Norðurlands vísaði í morgun frá máli sem saksóknari efnahagsbrota höfðaði gegn fólki á Akureyri sem nýtt hafði sér kerfisvillu í netbanka Glitnis til að þannig hagnast um tugmillljónir króna á gjaldeyrisviðskiptum. Dómarinn sagði í úrskurði sínum að ákæruvald saksóknara efnahagsbrota styddist ekki við lög. Freyr Ófeigsson dómsstjóri segir í úrskurði sínum, að saksóknara efnahagsbrota verði ekki falin sjálfstæð meðferð ákæruvalds með reglugerð að óbreyttum lögum.  Hann hafi ekki haft heimild til að gefa út ákæru í máli þessu í eigin nafni og því sé ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri fara með ákæruvald samkvæmt lögum frá 1991 um meðferð opinberra mála.  Samkvæmt lögunum hefur dómsmálaráðherra heimild til að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning.

Dómsmálaráðherra setti reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota sem tók gildi um síðustu áramót, þar sem fjallað er um hvernig saksóknara efnahagsbrota sé falið að annast rannsókn á tilgreindum brotum og meðferð þeirra mála fyrir dómstólum. Dómarinn Akureyri segir að með reglugerðinni, sé saksóknara efnahagsbrota í raun falið sjálfstætt ákæruvald.  Hann segir að ekki sé fyrir hendi heimild til að stofna embætti sjálfstæðs handhafa ákæruvalds. Verður að telja að með ákvæðum umræddrar reglugerðar sé farið út fyrir heimild 4. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála sem heimilar aðeins skipun saksóknara sem annist saksókn og málflutning í umboði lögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×