Enski boltinn

Grant: Vil ekki vera blaðamaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Avram Grant er ánægður með lífið hjá Chelsea.
Avram Grant er ánægður með lífið hjá Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Avram Grant, stjóri Chelsea, var kampakátur eftir 4-0 sigur sinna manna á Hull í enska deildabikarnum í kvöld.

„Þetta var gott hjá okkur. Við hefðum svo sem getað skorað fimmta markið,“ sagði Grant. „En ég er fyrst og fremst ánægður fyrir hönd leikmannanna. Þetta var góður dagur fyrir okkur. Öll mörkin komu eftir góðan samleik leikmanna og það er það sem ég vil sjá. Það var greinilegt að þessir strákar elska að spila fótbolta.“

Mikið hefur verið skrifað í ensku pressunni um ráðningu Grant og er augljóst að blaðamönnum finnst ekki mikið til hans koma.

„Þegar ég vakna á morgnana kyssi ég börnin mín. Það er eina sem skiptir máli,“ sagði Grant aðspurður hvort hann kvíddi því að sjá blöðin á morgnana.

„Ég þarf að sinna minni vinnu og aðrir hafa það að atvinnu að skrifa blaðagreinar. Ég vil ekki skipta við þá en kannski að einhverjir þeirra vilji skipta við mig. En þeir geta gert það sem þeir vilja í sinni vinnu, það breytir engu mín vegna.“

Blöðin hafa verið dugleg að orða Marco van Basten, landsliðsþjálfara Hollands, við stjórastöðuna hjá Chelsea.

„Það er ekkert óvenjulegt. Chelsea er risastórt félag sem margir frægustu þjálfara heims vilja þjálfa. Og það er bara gott mál.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×