Enski boltinn

Ferguson hundsvekktur með tapið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ferguson gengur svekktur af velli í kvöld.
Ferguson gengur svekktur af velli í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Sir Alex Ferguson var alls ekki ánægður með leik sinna manna á Old Trafford í kvöld.

Manchester United tapaði fyrir Coventry, 2-0, í ensku deildabikarkeppninni. Þrátt fyrir að hafa teflt fram óreyndu liði voru samt sem áður sex landsliðsmenn í liðinu, þeirra á meðal portúgalska tvíeykið Nani og Anderson sem kostuðu United 34 milljónir punda í sumar.

„Ég er algerlega orðlaus yfir þessari frammistöðu í kvöld,“ sagði Ferguson. „Ég átti alls ekki von á þessu. Ég er ekki mikið fyrir að gefa ástæður eða spá í kringumstæður. Þetta var einfaldlega slæm frammistaða.“

„Við höfum verið duglegir að hrósa þessum strákum. Þess vegna skil ég ekki hvað fór úrskeðis í kvöld.“

Nani og Anderson þóttu báðir slakir í leiknum sem og Chris Eagles og Dong Fangzhou en sá síðastnefndi komst næst því að skora fyrir United í leiknum.

„Maður vill gefa þessum strákum tækifærið og í kvöld gátum við gert einmitt það. Sá fjöldi stuðningsmanna Coventry sem komu hingað í kvöld gerði það að verkum að það var ekta bikarstemmning á leiknum og kannski var það nokkrum leikmönnum okkar um megn. Í fyrri hálfleik vorum við eftir á í hvern einasta bolta.“

Ian Dowie, stjóri Coventry, var vitaskuld hæstánægður með sigurinn. „Þetta kvöld verður lengi í minnum haft í Coventry.“ 

Til samanburðar má nefna að Arsene Wenger stillti upp ungu og óreyndu liði sem mætti Newcastle á heimavelli í sömu keppni í gær. Arsenal vann leikinn, 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×