Innlent

Þórólfur Guðnason valinn maður ársins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Egill

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er maður ársins að mati fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Margir voru um hituna á viðburðaríku ári en tilkynnt var um valið í þættinum Kryddsíld í dag, þar sem árið 2020 er gert upp.

Þórólfur hefur svo sannarlega sett svip sinn á árið sem er að líða, sem einkennst hefur af kórónuveirufaraldrinum. Hann hefur verið í forsvari fyrir baráttuna á upplýsingafundum og í fjölmiðlum; skilað inn minnisblöðum og lagt línurnar í aðgerðum hér á landi með það að markmiði að lágmarka dauðsföll og álag á heilbrigðisstofnanir.

„Þegar svona krísa kemur upp verða menn að stíga saman og stíga bylgjuna og gera hlutina samstillt. […] Ég vil þakka stjórnvöldum sérstaklega vel fyrir hvernig þau hafa verið í gegnum þennan faraldur,“ sagði Þórólfur eftir að valið var kynnt í Kryddsíld.

Áramótaheitið fyrir næsta ár kvað Þórólfur vera að „gefast ekki upp“. Þá hyggst hann verja gamlárskvöldi heima í rólegheitunum – en mun ekki skjóta upp flugeldum.

„Þvi ég var í nefnd sem fjallaði um loftmengun um áramótin þannig að ég varð að draga í land og hef staðið við það. Ég ætla að kveikja á einu litlu stjörnuljósi.“

Þá er heilbrigðisstarfsmaðurinn maður ársins að mati lesenda Vísis og hlustenda Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Niðurstaðan var kynnt í Reykjavík árdegis á Bylgjunni í morgun. Niðurstaðan var afgerandi en af tæplega 25 þúsund atkvæðum fékk heilbrigðisstarfsmaðurinn tvöfalt fleiri en næsti maður eða 8965 atkvæði.


Tengdar fréttir

Heilbrigðisstarfsmaðurinn maður ársins 2020

Heilbrigðisstarfsmaðurinn er maður ársins að mati lesenda Vísis og hlustenda Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Niðurstaðan var kynnt í Reykjavík árdegis í morgun. Niðurstaðan var afgerandi en af tæplega 25 þúsund atkvæðum fékk heilbrigðisstarfsmaðurinn tvöfalt fleiri en næsti maður eða 8965 atkvæði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.