Innlent

Brottreknir sársvekktir með að fá ekki jólagjöf frá starfsmannafélagi Isavia

Jakob Bjarnar skrifar
Nokkur hópur starfsmanna hjá Isavia lauk störfum um mánaðarmótin nóvember/desember eftir að hafa unnið uppsagnarfrest. Þeim sumum finnst það nöturlegt að fá ekki jólagjöf frá starfsmannafélaginu.
Nokkur hópur starfsmanna hjá Isavia lauk störfum um mánaðarmótin nóvember/desember eftir að hafa unnið uppsagnarfrest. Þeim sumum finnst það nöturlegt að fá ekki jólagjöf frá starfsmannafélaginu. vísir/vilhelm

Tæpir fimmtíu starfsmenn luku störfum hjá Isavia um mánaðarmótin nóvember/desember. Þeim sumum þykir súrt í broti að hafa ekki fengið jólagjöf frá starfsmannafélagi fyrirtækisins.

Vísi hefur borist ábending frá starfsfólki Isavia og dótturfélögum, sem misstu vinnuna nú í byrjun desember þau hafi ekki fengið jólagjöf þó þau hafi greitt í félagið allt árið. Þetta væru kaldar kveðjur, salt í sárið. Nóg væri nú samt.

Formaður starfsmannafélagsins er Sigrún Inga Ævarsdóttir og hún var undrandi á því að þetta erindi sé komið til fjölmiðla því að málið sé óafgreitt, að heita megi. Til standi að taka það sérstaklega fyrir á stjórnarfundi en þar sitja tíu manns; ekki hafi gefist færi á að kalla saman stjórnina. Sjálf er Sigrún Inga í sóttkví.

Í starfsmannafélaginu eru á milli 8 til 900 manns. Gefið var út á þá, alla skráða félagsmenn í desember, gjafabréf íslenskrar ferðaþjónustu í gegnum SAF að andvirði 20 þúsund króna.

Sigrún Inga segir viðkomandi starfsmenn hafa fengið jólagjöf frá fyrirtækinu. En starfsmannafélagið er á sérstakri kennitölu og þar hafi ekki tíðkast að gefa jólagjafir. En vegna Covid-19 hafi ýmsir atburðir fallið niður. Þar ber hæst jólahlaðborðið í desember sem er helsti viðburðurinn á vegum starfsmannafélagsins og hefur verið haldið árum saman. En ekki í ár. „Jólagjöfin var einkum hugsuð sem sárabót fyrir það,“ segir Sigrún Inga í samtali við Vísi.

Vísir hafði samband við Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúa Isavia og að hans sögn voru þeir 47 talsins sem létu af störfum hjá Isavia, þá móður- og dótturfélögum, um mánaðarmótin nóvember desember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×