Erlent

Unnusta Khashoggi vill að Biden birti skýrslu CIA um morðið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Krónprinsinn, neðst til vinstri, hefur ávallt neitað því að hafa fyrirskipað morðið eða haft um það vitneskju.
Krónprinsinn, neðst til vinstri, hefur ávallt neitað því að hafa fyrirskipað morðið eða haft um það vitneskju. epa

Hatice Cengiz, unnusta Jamal Khashoggi, hefur skorað á nýkjörinn forseta Bandaríkjanna að birta skýrslu leyniþjónustunnar (CIA) um morðið á blaðamanninum. Segir hún birtinguna munu skipta sköpum í því að leiða sannleikann í ljós.

Umrædd skýrsla hefur aldrei verið birt en fjölmiðlar hafa greint frá því að leyniþjónustan komist að þeirri niðurstöðu að það séu miðlungs til miklar líkur á því að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, hafi fyrirskipað morðið.

Cengiz og aðrir aðgerðasinnar segja að birting skýrslunnar myndi sýna fram á að Joe Biden væri alvara í því að láta Sádi Arabíu axla ábyrgð á morðinu, líkt og hann hét í kosningabaráttunni.

Heimildarmaður segir Biden munu standa við orð sín

Guardian hefur eftir heimildarmanni sem er sagður hafa vitneskju um valdaskiptin vestanhafs og þankagang Biden að forsetinn verðandi hyggist standa við það sem hann sagði. „Við vitum að það er enn vinna fyrir höndum, meðal annars að veita nauðsynlegt gegnsæi.“

Khashoggi hvarf þegar hann heimsótti sendiráð Sádi Arabíu í Istanbúl í október 2018. Líkamsleifar hans hafa ekki fundist. Stjórnvöld í Riyadh viðurkenndu að blaðamaðurinn hefði verið myrtur af útsendurum frá Sádi Arabíu en sögðu að um hefði verið að ræða framsalsaðgerði sem hefði farið úrskeðis.

Krónprinsinn hefur ávallt neitað því að hafa fyrirskipað morðið eða haft um það vitneskju.

Sérfræðingar ekki á einu máli um birtingu skýrslunnar

Biden gaf til kynna í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar að afstaða Hvíta hússins til Sádi Arabíu myndi breytast þegar hann tæki við af Donald Trump. Hins vegar er óljóst hversu langt hann mun ganga en Guardian hefur eftir Safa Al Ahmad, sádiarabískum blaðamanni og aðgerðasinna, að birting skýrslunnar væri auðvelt skref að stíga sem gæti samt sem áður haft raunveruleg áhrif.

Bruce Riedel, fyrrum starfsmaður leyniþjónustunnar og fræðimaður hjá Brookings Institution, segir ólíklegt að skýrslan verði birt þar sem útmá þyrfti stóra hluta hennar en Agnes Callamard, skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um aftökur utan dóms og laga, segist telja að hægt sé að birta skýrsluna án þess að uppljóstra um heimildarmenn leyniþjónustunnar eða aðferðir.

Guardian fjallar ítarlega um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.