Innlent

Litlu áorkað í löggæslumálum að mati Greco

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úttekt GRECO, sem var samþykkt þann 23. mars 2018, náði annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdarvalds en hins vegar löggæsluyfirvalda og voru gerðar níu tillögur til Íslands í hvorum hluta.
Úttekt GRECO, sem var samþykkt þann 23. mars 2018, náði annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdarvalds en hins vegar löggæsluyfirvalda og voru gerðar níu tillögur til Íslands í hvorum hluta. Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld hafa innleitt fjórar af þeim átján tillögum sem GRECO, samtök ríkja gegn spillingu, lögðu til að innleiddar væru hér á landi til þess að sporna gegn spillingu. Samtökin telja íslensk stjórnvöld hafa áorkað litlu í tengslum við tillögur sem snúa að löggæsluyfirvöldum.

Úttekt GRECO, sem var samþykkt þann 23. mars 2018, náði annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdarvalds en hins vegar löggæsluyfirvalda og voru gerðar níu tillögur til Íslands í hvorum hluta. Samtökin hafa nú birt eftirfylgniskýrslu um aðgerðir Íslands vegna úttektarinnar þar sem segir að stjórnvöld þurfi að gera betur

Í skýrslunni, sem lesa má hér, segir að Greco telji Ísland hafa innleitt fjórar tillögur á fullnægjandi hátt, sjö hafi verið innleiddar að hluta en sjö hafi ekki verið innleiddar. Á vef stjórnarráðsins segir að tillögurnar fjórar sem innleidar hafi verið varði æðstu handhafa framkvæmdarvalds hér á landi.

Þar á meðal fagnar Greco því að lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands taki gildi þann 1. janúar næstkomandi. Þó nefna samtökin að ákvæði um starfsval hjá æðstu stjórnendum og aðstoðarmönnum þeirra að loknum opinberum störfum séu frekar veik, og er þar sérstaklega horft til ákvæðisins þar sem segir að æðstu stjórnendum sé óheimilt að gerast hagsmunaverði í sex mánuði eftir að störfum þeirra í Stjórnarráði Íslands lýkur.

Ekki miklu áorkað hingað til í hinum flokknum

Í niðurstöðukafla úttektarinnar segir að þegar kemur að tillögum sem snúa að löggæsluyfirvöldumm hinum flokknum sem tillögunar snúa að,  sé ljóst að vinna stjórnvalda við úrbætur sé í gangi, án þess að miklu hafi verið áorkað hingað til. Til að mynda sé ekki búið að yfirfara siðareglur lögreglumanna og ekki sé búið að setja lögreglumönnum skýrari reglur hvað varðar gjafir og önnur fríðindi, svo dæmi séu tekin.

Samtökin fara þess á leit að Ísland upplýsi um innleiðingu þeirra tillagna sem eftir standa fyrir þann 30. apríl 2022 en á vef stjórnarráðsins segir að unnið sé að innleiðingu tillagna GRECO í forsætisráðuneytinu í tengslum við vinnu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Í skýrslu starfshópsins frá september 2018 voru gerðar 25 tillögur til stjórnvalda og fela sumar þeirra í sér nánari útfærslu á tillögum GRECO.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×