Erlent

Lítil hreyfing á fylgi frambjóðendanna á lokametrunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Biden (t.v.) og Trump (t.h.) í lokakappræðum sínum á fimmtudag í síðustu viku. Kannanir hafa sýnt litlar breytingar á fylgi þeirra síðan og heldur Biden forskoti á landsvísu og í mörgum lykilríkjum.
Biden (t.v.) og Trump (t.h.) í lokakappræðum sínum á fimmtudag í síðustu viku. Kannanir hafa sýnt litlar breytingar á fylgi þeirra síðan og heldur Biden forskoti á landsvísu og í mörgum lykilríkjum. Vísir/EPA

Joe Biden, forsetaefni Demókrataflokksins, mælist enn með afgerandi forskot á Donald Trump Bandaríkjaforseta í skoðanakönnununum á landsvísu nú þegar fimm dagar eru til kosninga. Sem fyrr er munurinn á frambjóðendunum í lykilríkjum minni en á landsvísu en fátt bendir til þess að veruleg hreyfing sé á fylgi við þá.

Meðaltal skoðanakannana sem vefsíðan Five Thirty Eight heldur utan er nú níu prósentustiga forskot Biden á Trump á landsvísu. Fjöldi kannana sem var gerður eftir kappræður frambjóðendanna fyrir viku og var birtur í vikunni færði Trump þannig hálfu prósentustigi nær Biden á landsvísu. Á sama tíma jókst forskot Biden á Trump í þeim ríkjum sem eru talin ráða úrslitum í kosningunum um sambærilegan stigafjölda.

Spálíkan vefsíðunnar gefur Biden nú 89% líkur á að Biden sigri en Trump aðeins 11%. Það útilokar ekki að Trump gæti náð naumum meirihluta kjörmanna á landsvísu. Til þess þyrfti þó líklega að draga nokkuð saman með þeim Biden á síðustu dögum kosningabaráttunnar og kannanir að vera skakkar um nokkur prósentustig.

„Trump þarf nánast örugglega verulega stærri kannanaskekkju árið 2020 en hann fékk árið 2016 til að hann geti unnið,“ tístir Harry Enten, kosningaspekingur CNN-fréttastöðvarinnar.

Real Clear Politics sem einnig heldur utan um meðaltal skoðanakannana gefur Trump aðeins betri líkur á landsvísu og sýnir Biden með 7,5 prósentustiga forskot. Í lykilríkjunum er Biden með 3,7 prósentustiga forskot að meðaltali.

Ekkert sem bendir til þess að dragi saman með frambjóðendunum

Í grein Nate Silver, ritstjóra Five Thirty Eight sem á veg og vanda af spálíkaninu, bendir hann á að vandaðri skoðanakannanir sýni betri niðurstöðu fyrir Biden en þær lakari. Þannig mælist Biden með á bilinu níu til tólf prósentustiga forskot á landsvísu í könnunum Yougov, Morning Consult og Ipsos. Þetta segir Silver ekki boða gott fyrir horfur Trump.

Nate Cohn, sérfræðingur New York Times í skoðanakönnunum, tekur í svipaðan streng um nýju skoðanakannanirnar. Fátt sé um góð tíðindi fyrir Trump í þeim.

„Ég sé ekkert sem bendir til þess að það sé að draga saman og margar kannananna sem voru birtar í dag voru gerðar að öllu leyti eftir lokakappræðurnar,“ skrifaði Cohn á The Upshot, vefsíðu New York Times, í gær.

Trump naut góðs af skekkju í könnunum fyrir kosningarnar árið 2016 og vann nokkuð óvæntan sigur. Cohn birti í vikunni tölfræði sem bendir til þess að Biden væri enn með forskot víðast hvar jafnvel þó að skekkjan væri jafnmikil og þá. Sérfræðingar hafa einnig bent á að skekkjur í könnunum geti einnig verið í ólíkar áttir frá einum kosningum til annara.

Biden bætir við sig í miðvesturríkjum

Það sem verra er fyrir Trump virðist fylgi Biden að aukast í miðvesturríkjunum sem voru lykillinn að sigri forsetans í kosningunum árið 2016. Biden hefur bætt við sig um 1,7 prósentustigum að meðaltali í könnunum í Michigan, Wisconsin, Minnesota og Iowa frá kappræðunum á fimmtudag fyrir viku. Það er eina landsvæðið þar sem fylgi virðist á hreyfingu og þá í átt að Biden.

Sérstaka athygli vakti þegar skoðanakönnun ABC og Washington Post mældi Biden með sautján prósentustiga forskot á Trump í Wisconsin í vikunni. Silver segir ólíklegt að Trump sé svo langt á eftir Biden í ríkinu en meðaltal þeirra þriggja kannana sem hafa verið gerðar þar eftir kappræðurnar sýna Biden með 10,5 prósentustiga forskot.

Harðasta baráttan í ár er háð um Pennsylvaníu sem Trump vann með innan við eins prósentustigs mun árið 2016. Munurinn á Trump og Biden þar er mun minni en víðast annars staðar. Silver segir að Pennsylvanía sé langlíklegasta ríkið til þess að valda úrslitum um hvor frambjóðandinn nær meirihluta kjörmanna á landsvísu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.