Innlent

Dóms að vænta í grófu nauðgunarmáli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konur í fjölmörgum starfstéttum deildu áfallasögum sínum í #metoo byltingunni síðla árs 2017.
Konur í fjölmörgum starfstéttum deildu áfallasögum sínum í #metoo byltingunni síðla árs 2017. Vísir/GarðarKjartans

Aðalmeðferð lauk í síðustu viku í grófu kynferðisbrotamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur. Meint brot átti sér stað í ágúst 2008 í hótelherbergi, utan landsteinanna samkvæmt heimildum Vísis. Ákærði og brotaþoli þekktust. 

Konan lagði ekki fram kæru í málinu þegar það kom upp. Áratug síðar, í kjölfar #metoo byltingarinnar, hóf lögregla rannsókn á málinu.

Grófar lýsingar í ákæru

Í ákærunni, þar sem nöfn aðila eru afmáð og finna má grófar lýsingar sem rétt er að vara við, kemur fram að karlmaðurinn sé ákærður fyrir nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. ágúst 2008 í hótelherbergi haft samræði við konu gegn hennar vilja.

Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Almennt er reiknað með því að dómar séu kveðnir upp innan við fjórum vikum eftir að meðferð lýkur.Vísir/Vilhelm

Er karlmanninum gefið að sök að hafa beitt konuna ólögmætri nauðung og ofbeldi. Meðal annars kastað sér á hana þar sem hún lá í rúmi og haldið henni fastri niðri. Eftir að konan féll í gólfið í átökunum hafi hann aftrað henni frá því að standa á fætur með því að grípa í fótlegg hennar.

Við það hafi hún skollið harkalega á gólfið og dottið á bakið. Ákærði hafi sett hné í bringu hennar. Eftir að konan náði að skríða upp í rúm hafi karlmaðurinn lagst ofan á hana og haft við konuna samræði.

Marblettir víða á líkama

Af þessu hafi konan hlotið marblett, fimm sentimetra langan og tveggja sentimetra breiðan, undir viðbeini vinstra megin. Einnig marbletti á báðum framhandleggjum. Marblett og rispu á maga, á vinstri fæti, marblett og núningssár á vinstra hné og sprungur við leggangaop.

Málið telst varða fyrstu málsgrein 194. greinar almennra hegningarlaga en viðurlög varða fangelsi frá einu ári og allt að sextán árum. 

Þá krefst konan í einkaréttakröfu að karlmaðurinn verði dæmdur til að greiða henni sex milljónir króna í bætur.

Sagan ekki á meðal þeirra sem birtust

#metoo Hreyfingin fór á fullt um heim allan í kjölfar þess að hópur kvenna steig fram og lýsti brotum kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Hann hefur síðan verið dæmdur fyrir kynferðisbrot.

Fjölmargir Facebook-hópar voru myndaðir í íslenskum starfstéttum þar sem konur stigu fram, stundum undir nafnleynd, og deildu áfallasögum sínum. Má nefna konur í fjölmiðlum, stjórnmálum og sviðslistum sem dæmi. Í framhaldinu sendu margir hópar frá sér yfirlýsingu og með fylgdi fjöldi frásagna undir nafnleynd.

Efnt var til viðburðar í Borgarleikhúsinu þar sem konur úr ólíkum stéttum lásu upp áfallasögur.

Frásögnin um hina meintu nauðgun árið 2008 birtist í einum slíkum hóp undir nafnleynd. Vöktu lýsingarnar mikinn óhug í hópnum. Þessi saga var ekki send út með öllum hinum þegar frásagnir þeirrar stéttar voru birtar opinberlega.

Málin vöktu mikla athygli og voru íslenskir fjölmiðlar undirlagðir áfallasögum kvenna í nokkrar vikur. Einstaka karlmenn misstu vinnuna auk þess sem fyrirtæki og stofnanir hétu að gera betur í sínum málum. 

Metoo-hreyfingin var valin maður ársins af fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.

Grófustu kynferðisbrotin fyrnast á fimmtán árum

Málið var þingfest í maí en þá kom fram í frétt Ríkisútvarpsins að innan við tvö ár væru liðin frá því að málið var kært. Um áratugur var því liðinn frá því að meint brot átti sér stað.

Kynferðisbrot þar sem þyngsta refsing varðar meira en tíu ára fangelsi fyrnast á fimmtán árum.

Vísi er ekki kunnugt um að fallið hafi dómur í máli hér á landi sem hafi verið kært í kjölfar #metoo byltingarinnar.

Athugasemd ritstjórnar 3. desember 2021. 

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá Geir Gestssyni, réttargæslumanni brotaþola, að hún hefði aldrei kært málið. Hann segir að lögregla hafi hafið frumkvæðisrannsókn á málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×