Körfubolti

KR kveðst hafa boðið Kristófer „mjög sanngjarna lausn“ til að leysa launadeilu

Sindri Sverrisson skrifar
Kristófer Acox leist ekki á tilboð KR og kvaddi.
Kristófer Acox leist ekki á tilboð KR og kvaddi. VÍSIR/BÁRA

KR-ingar segjast hafa boðið Kristófer Acox „mjög sanngjarna lausn“ til að leysa ágreining varðandi launamál og áframhaldandi samning en Kristófer hafi hafnað því. Þá hafi annað félag sent Kristófer samningsdrög.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá körfuknattleiksdeild KR nú í kvöld, í kjölfar þess að Kristófer lýsti því yfir að hann væri hættur hjá félaginu vegna „ágreinings sem ekki náðist að leysa“. Ljóst er að sá ágreiningur er til kominn vegna vangoldinna launa og samkvæmt upplýsingum Vísis er þar um verulegar upphæðir að ræða.

Körfuknattleiksdeild KR, sem á dögunum voru tryggðar 4,2 milljónir króna bætur frá ÍSÍ vegna þess að ekkert varð af úrslitakeppni í körfuboltanum síðasta vor, reyndi að leysa ágreiningin en hafði ekki erindi sem erfiði.

KR-ingar fullyrða að önnur félög hafi haft samband við Kristófer þó að hann væri enn samningsbundinn KR, og eitt félag hafi sent honum samningsdrög. Slíkt sé, ef ekki ólöglegt, ekki til eftirbreytni fyrir körfuboltahreyfinguna.

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan.

Yfirlýsing frá körfuknattleiksdeild KR

Eins og komið hefur fram þá hefur Kristófer Acox lýst því yfir að hann hafi yfirgefið KR. Körfuknattleiksdeild KR hefur undanfarnar vikur lagt mikla vinnu í að leysa þá stöðu sem uppi er varðandi samning Kristófers. Eins og allir vita hefur Covid-19 faraldurinn sett strik í reikninginn í íþróttahreyfingunni síðustu mánuði og er KR engin undantekning þar. Körfuknattleiksdeild KR bauð Kristófer mjög sanngjarna lausn til að leysa málin, bæði hvað varðar launaágreining og áframhaldandi samning, en því miður hafnaði Kristófer því.

Körfuknattleiksdeild KR hefur fyrir því öruggar heimildir að önnur lið hafi sett sig í samband við Kristófer þrátt fyrir að hann væri samningsbundinn KR, eins að hann hafi fengið send samningsdrög frá öðru liði. Þess háttar vinnubrögð eru, ef ekki ólögleg, þá allavega ekki til eftirbreytni innan okkar ágætu körfuboltahreyfingar.

Körfuknattleiksdeild KR þakkar Kristófer hans framlag til félagsins og óskar honum alls hins besta í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Valur gæti fengið enn eina stjörnuna úr KR

Orðrómar þess efnis að Kristófer Acox, leikmaður KR í Domino´s-deild karla í körfubolta, sé á leið í Val verða háværari með hverjum deginum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.