Körfubolti

Valur gæti fengið enn eina stjörnuna úr KR

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristófer Acox hefur verið einn af betri leikmönnum Domino´s-deildarinnar undanfarin ár.
Kristófer Acox hefur verið einn af betri leikmönnum Domino´s-deildarinnar undanfarin ár. vísir/bára

Samkvæmt heimildum Karfan.is eru miklar líkur á að Kristófer Acox fylgi Jón Arnóri Stefánssyni yfir í Val. Orðrómar þess efnis verða háværari með hverjum deginum.

Þar með væru þrír af máttarstólpum KR undanfarin ár komnir í Val en Pavel Ermolinski samdi við félagið fyrir síðasta tímabil.

Þjálfari Vals er svo Finnur Freyr Stefánsson sem gerði KR að Íslandsmeisturum öll fimm árin sem hann þjálfaði liðið. Hann þjálfaði í Danmörku síðasta vetur en tók við Val í sumar.

Kristófer er samningsbundinn KR sem eru enn ríkjandi Íslandsmeistarar eftir að Domino´s-deildinni var aflýst síðasta vor vegna kórónufaraldursins. Körfuknattleiksdeild KR hefur lítinn áhuga á að hleypa Kristófer yfir lækinn til Vals enda tvisvar verið valin besti leikmaður deildarinnar á undanförnum árum ásamt því að vera fastamaður í íslenska landsliðinu.

Karfan.is segist einnig hafa heimildir fyrir því að forráðamenn Vals séu að ræða við samningsbundna leikmenn deildarinnar. Eitthvað sem fer ekki vel í forráðamenn hinna liðanna í deildinni.

Þó Finnur Freyr hafi sagt að markmið Vals sé að komast í úrslitakeppnina er ljóst að ef Kristófer endar á Hlíðarenda þá þarf liðið að setja markið töluvert hærra en það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×