Erlent

For­sætis­ráð­herra Ír­lands segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Leo Varadkar tók við embætti forsætisráðherra Írlands árið 2017.
Leo Varadkar tók við embætti forsætisráðherra Írlands árið 2017. AP

Leo Varadkar sagði af sér sem forsætisráðherra Írlands í gær eftir að nýju þingi mistókst í atkvæðagreiðslum að koma sér saman um nýjan forsætisráðherra. Varadkar mun þó starfa áfram sem forsætisráðherra þar til að samkomulag næst um nýjan.

Írska þingið kom saman í gær í fyrsta sinn frá því að þingkosningar fóru fram þann 8. febrúar. Á fundinum var á dagskrá að greiða atkvæði um nýjan forsætisráðherra. Enginn fulltrúa flokkanna hlaut þó nægilegan stuðning þingmanna þar sem meirihluta var krafist.

Stærstu flokkarnir þrír – íhaldsflokkurinn Fine Gael, vinstri þjóðernisflokkurinn Sinn Féin og frjálslyndi flokkurinn Fianna Fáil – hlutu allir um 22 prósent atkvæða í kosningunum.

Alls eiga 160 þingmenn sæti á írska þinginu, en Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, var sú sem hlaut flest atkvæði í atkvæðagreiðslum gærdagsins, eða 45 talsins. Micheal Martin, leiðtogi Fianna Fáil, hlaut 41 atkvæði en Varadkar frá Fine Gael 36.

Þingfundi hefur verið frestað til 5. mars, en flokkarnir munu fram að því reyna að koma sér saman um starfhæfa stjórn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×