Erlent

Af­sanna rætnar sam­særis­kenningar um aldur drengsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðbrögðin við myndbandinu af Quaden hafa verið gífurleg.
Viðbrögðin við myndbandinu af Quaden hafa verið gífurleg.

Fjölmiðlar hafa í gær og í dag afsannað rætnar samsæriskenningar um aldur Quaden Bayles, níu ára þolanda eineltis sem hlotið hefur gríðarlegan stuðning eftir að myndband af honum fór eins og eldur í sinu um netheima.

Móðir Quadens birti myndbandið á Facebook-síðu sinni í vikunni. Þar má heyra Quaden segja að hann vilji deyja sökum eineltis sem hann hefur þurft að þola um árabil. Quaden er með brjóskkyrkingu (anchondroplasia), algengustu tegund dvergvaxtar.

Eftir að myndbandið birtist fór Quaden að berast stuðningur úr öllum áttum. Skilaboðum hefur rignt yfir fjölskylduna, úr röðum almennra netverja sem og Hollywood-stjarna, og myllumerkið #StopBullying varð vinsælt á Twitter.

Sjá einnig: Gífurlegur stuðningur við ungan þolanda skelfilegs eineltis

Strax sama dag og myndbandið fór í dreifingu hófu að birtast færslur á samfélagsmiðlum, þar sem Quaden var sagður hafa blekkt netheima. Hann væri í raun átján ára, vel efnuð Instagram-stjarna.

Því til sönnunar var m.a. bent á myndir úr afmælisveislu, sem birtar höfðu verið á Instagram-reikningi Quadens, þar sem átján ára afmæli virtist fagnað. Quaden reyndist þó aðeins gestur í þeirri veislu, ekki afmælisbarnið.

Fjölmiðlar og aðrir samfélagsmiðlanotendur afsönnuðu fljótt umræddar samsæriskenningar. Þannig var vísað í myndir á Facebook-síðu móður hans sem teknar voru árið 2011, þar sem sést vel að Quaden var aðeins nokkurra mánaða.

Þá hefur einnig verið bent á ýmiss konar fjölmiðlaumfjöllun um Quaden í gegnum árin. Quaden var þannig sagður fjögurra ára þegar tekið var viðtal við hann á áströlsku sjónvarpsstöðinni Network 10 árið 2015. Það kemur heim og saman við aldur hans nú.

Qua­den fékk í dag að leiða ruðningslið Indig­enous All Stars inn á leik­vanginn í leik liðsins gegn New Zea­land Ma­or­is. Leikmenn Indig­enous All Stars voru einmitt á meðal þeirra sem lýstu yfir stuðningi við hann í gær. Quaden virtist hæstánægður með hlutskipti sitt á leikvanginum í dag; hélt í hönd fyr­irliðans á leið inn á völl­inn og stillti sér upp á ljósmyndum með liðinu.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.