Fótbolti

Maðurinn sem stríddi Man Utd mikið í fyrri leiknum verður ekki með í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emmanuel Dennis fagnar marki sínu á móti Manchester United.
Emmanuel Dennis fagnar marki sínu á móti Manchester United. Getty/Vincent Van Doornick

Manchester United fær belgíska félagið Club Brugge í heimsókn í kvöld í síðari leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Ole Gunnar Solskjaer, knattspyrnustjóri Manchester United, og lærisveinar hans þurfa ekki að hafa ekki áhyggjur af besta manni Club Brugge í fyrri leiknum.

Emmanuel Dennis var besti maður vallarins í fyrri leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli á heimavelli Club Brugge. Emmanuel Dennis kom Brugge liðinu meðal annars í 1-0 á 15. mínútu í fyrri leiknum í síðustu viku en Anthony Martial jafnaði metin á 36. mínútu.


Nú er hins vegar ljóst að meiðslin, sem Emmanuel Dennis varð fyrir um helgina í leik á móti Charleroi, eru það alvarleg að hann missir af leiknum í kvöld. Fyrirliðinn Ruud Vormer er líka óleikfær.

Emmanuel Dennis er 22 ára Nígeríumaður sem hefur skorað 9 mörk fyrir Club Brugge í öllum keppnum á þessu tímabili.

Þetta er mikill missir fyir belgíska liðið sem verður að skora á Old Trafford til þess að komast áfram í sextán liða úrslitin.

Það er ljóst að þarna fer alvöru maður. Emmanuel Dennis skoraði líka tvö mörk í 2-2 jafntefli á móti Real Madrid á sjálfum Santiago Bernabéu í Meistaradeildinni í október. Hann er því vanur að skapa usla á móti stóru klúbbunum.

Leikur Manchester United og Club Brugge hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.