Sport

Fótalaus maður vill fá að keppa í spretthlaupi á ÓL í Tókýó í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blake Leeper bregður á leik fyrir framan myndavélarnar.
Blake Leeper bregður á leik fyrir framan myndavélarnar. Getty/Allen Berezovsky

Bandaríkjamaðurinn Blake Leeper vill fá að feta í fótspor Oscar Pistorius og keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar og hefur áfrýjað til Alþjóðaíþróttadómstólsins.

Blake Leeper er fótalaus en hleypur með tvo gervifæti. Hann vann sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu á síðasta ári en fékk samt ekki að keppa.

Leeper vill nú fá Alþjóðaíþróttadómstólinn til að hjálpa sér alveg eins og hann gerði í tilfelli Suður-Afríkumannsins Oscar Pistorius árið 2008. Pistorius vann slíkt mál þegar hann áfrýjaði og fékk að keppa á ÓL í London 2012.



Hinn þrítugi Blake Leeper hefur hlaupið 400 metrana á 44,3 sekúndum sem er nógu góður tími til að fá þátttökurétt á úrtökumóti Bandaríkjamanna í júní.

Blake Leeper hefur beðið um að málið sitt fái flýtimeðferð svo að hann geti tekið þátt í úrtökumótinu og tryggt sér sæti í Ólympíuliði Bandaríkjamanna.

„Ég treysti CAS (Alþjóðaíþróttadómstólinn) til að samþykkja það að ég hef ekkert forskot á fullfæra keppendur. Ég vil bara fá sanngjarnt tækifæri til að keppa við þá,“ sagði Blake Leeper.

Blake Leeper fæddist fótalaus fyrir neðan hné.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur breytt afstöðu sinni til svona mála. Nú er sönnunarbyrðin hjá íþróttamanninum sjálfum því hann þarf að sýna það og sanna að gervifæturnir gefi honum ekki forskot.



Leeper er ekki samt ekki Ólympíumeistari í sínum T43 fötlunarflokki. Hann var silfur í 400 metra hlaupi og brons í 200 metra hlaupi á Ólympíumóti fatlaðra árið 2012 en í báðum hlaupunum tapaði hann fyrir Oscar Pistorius.

Það var enginn Oscar Pistorius á Ólympíumótinu 2016 en heldur enginn Blake Leeper því hann var í keppnisbanni eftir að það fannst kókaín í sýni hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×