Innlent

Próf­steinn á hvernig utan­ríkis­þjónustan tekst á við stór og vanda­söm verk­efni

Atli Ísleifsson skrifar
Úr fundarsal mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.
Úr fundarsal mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. EPA

Seta Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hefur verið prófsteinn á það hvernig íslenska utanríkisþjónustan tekst á við stór og vandasöm verkefni.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í nýútkominni skýrslu ráðuneytisins sem unnin var eftir að kjörtímabili Íslands í mannréttindaráðinu lauk um áramótin.

Í aðfararorðum skýrslunnar segir Guðlaugur Þór að ef marka megi umsagnir alþjóðlegra mannréttindasamtaka og stórra erlendra fjölmiðla megi segja að Íslendingar hafi staðist þá prófraun. Hann segir ennfremur að markmiðin sem lagt hafi verið upp með í við fulla aðild Íslands að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna hafi náðst í öllum aðalatriðum.

Í skýrslunni er farið yfir aðdraganda kjörs Íslands í mannréttindaráðið sem bar að með skömmum fyrirvara eftir að Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu. Sömuleiðis er farið yfir hvernig undirbúningi var háttað og hvaða mál hafi verið efst á baugi meðan á setu Íslands í ráðinu stóð.

Guðlaugur Þór segir að einhugur hafi ríkt um að íslensk stjórnvöld hafi ætlað sér að hafa jákvæð áhrif á líf fólks í þeim ríkjum sem staða mannréttinda er bág. „Áður en Ísland kom til skjalanna höfðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu sloppið að mestu við gagnrýni í ráðinu og ákall eftir úttekt Sameinuðu þjóðanna á ástandinu á Filippseyjum var hávært. Við þessu varð að bregðast og Ísland leiddi hóp ríkja í gagnrýni á Sádi-Arabíu í mars 2019 og í júlí 2019 samþykkti mannréttindaráðið að frumkvæði Íslands að óska eftir skýrslu um Filippseyjar frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.