Handbolti

Úr Pepsi-deildinni í fótbolta á stórmót í handbolta | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó valdi á endanum handboltann eftir að hafa lagt aðaláherslu á fótboltann í nokkur ár.
Viggó valdi á endanum handboltann eftir að hafa lagt aðaláherslu á fótboltann í nokkur ár. mynd/hsí/blikar.is

Viggó Kristjánsson átti eftirminnilega innkomu þegar Ísland vann Rússland, 34-23, í öðrum leik sínum á EM 2020 í handbolta í gær.

Skyttan örvhenta lék í rúmar 19 mínútur gegn Rússum og nýtti þær einstaklega vel. Hann skoraði fjögur mörk, fiskaði eitt vítakast og átti eina sendingu sem gaf víti.

Viggó, sem er 26 ára, er á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu en aðeins tæpir þrír mánuðir eru síðan hann lék sína fyrstu landsleiki.

Seltirningurinn lék með Íslandi í æfingaleikjunum gegn Svíþjóð í október í fyrra og heillaði landsliðsþjálfarann Guðmund Guðmundsson sem tók hann með á EM.

Viggó er með svolítið annan bakgrunn en aðrir í íslenska landsliðinu. Fram til 2014 einbeitti hann sér að fótbolta og lék m.a. með Breiðabliki í Pepsi-deild karla. Þá lék hann átta leiki fyrir yngri landslið Íslands í fótbolta.

Viggó í leik með Gróttu gegn Víkingi R. 2010. Með honum á myndinni er gamli landsliðsframherjinn Helgi Sigurðsson. vísir/valli

Eftir tímabilið 2011, þar sem Viggó lék 20 leiki með Gróttu í 1. deildinni, samdi hann við Breiðablik sem hafði orðið Íslandsmeistari árið áður.

Tímabilið 2012 var Viggó lánaður til ÍR og lék 15 leiki með liðinu í 1. deildinni. 

Árið eftir fékk hann hins vegar tækifæri með Breiðabliki. Hann lék tólf leiki með Blikum í Pepsi-deildinni auk fjögurra bikarleikja.

Viggó í leik með Breiðabliki sumarið 2013. mynd/blikar.is

Í leikjunum tólf í Pepsi-deildinni gaf Viggó þrjár stoðsendingar og fiskaði eitt víti sem gaf mark. Stoðsendingarnar og vítið sem hann náði í má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Fótboltatilþrif Viggós


Viggó fór aftur í Gróttu 2014 og það sumar skoraði hann ellefu mörk í 20 leikjum í 2. deildinni.

Það voru síðustu leikir Viggós í meistaraflokki í fótbolta. Hann tók aftur upp þráðinn í handboltanum með Gróttu og tímabilið 2014-15 var hann markahæstur í 1. deildinni sem Seltirningar unnu með yfirburðum. Viggó skoraði 192 mörk í 22 leikjum, eða 8,7 mörk að meðaltali í leik.

Tímabilið 2015-16 lék Viggó svo með Gróttu í Olís-deildinni. Seltirningar enduðu í 5. sæti og komust í bikarúrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Valsmönnum. Viggó skoraði 117 mörk í 27 deildarleikjum og var næstmarkahæstur í liði Gróttu.

Tveimur árum eftir að hafa tekið upp handboltaþráðinn að nýju var Viggó kominn í atvinnumennsku. vísir/vilhelm

Sumarið 2016 samdi Viggó við Randers í Danmörku. Hann lék svo með West Wien í Austurríki um tveggja ára skeið áður en hann gekk í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins Leipzig fyrir þetta tímabil.

Viggó stoppaði stutt við hjá Leipzig því í nóvember samdi hann við Wetzlar út tímabilið. Að því loknu gengur hann til liðs við Stuttgart.

Þess má geta að Viggó er sonur bæjarstjórans á Seltjarnarnesi, Ásgerðar Halldórsdóttur.

Viggó og félagar í íslenska landsliðinu mæta Ungverjalandi í lokaleik sínum í E-riðli á morgun. Vinni Íslendingar taka þeir tvö stig með sér í milliriðla.


Tengdar fréttir

Viggó: Mig hefur dreymt um þessa stund

Nýliðinn af Seltjarnarnesinu, Viggó Kristjánsson, mun fá nokkuð stórt hlutverk á EM en hann deilir skyttustöðunni hægra megin með Alexander Peterssyni.

Sportpakkinn: Viggó samdi við Wetzlar

Viggó Kristjánsson hefur færst sig um set í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en hann mun spila með Wetzlar það sem eftir er tímabils.

Viggó í landsliðið

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, hefur neyðst til þess að gera breytingu á landsliðshópi sínum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.