Handbolti

Íslendingar komnir í milliriðla en þurfa að vinna Ungverja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Kristján í leiknum gegn Rússum.
Kári Kristján í leiknum gegn Rússum. vísir/epa

Ísland er komið áfram í milliriðla á EM 2020 í handbolta. Þetta var ljóst eftir jafntefli Danmerkur og Ungverjalands, 24-24, í kvöld.

Íslendingar hafa unnið báða leiki sína á EM og eru með fjögur stig á toppi E-riðils. Ungverjar eru í 2. sætinu með þrjú stig og Danir í því þriðja með eitt stig. Rússar reka lestina og eru úr leik.

Síðustu tveir leikirnir í E-riðli fara fram á miðvikudaginn. Klukkan 17:15 mætast Ísland og Ungverjaland og klukkan 19:30 er komið að leik Rússlands og Danmerkur.

Ef Ísland vinnur Ungverjaland er öruggt að liðið fer með tvö stig í milliriðla.

Íslendingar verða líka með örlög Dana í sínum höndum á miðvikudaginn. Danir þurfa að treysta á að Íslendingar vinni Ungverja til að eiga möguleika á að komast áfram. Þeir þurfa svo að sjálfsögðu að vinna Rússa í seinni leiknum.

Ef það gerist verða Danir og Ungverjar með jafn mörg stig (3) og þá ræður heildarmarkatala því hvort liðið kemst áfram. Eins og staðan er núna er Ungverjaland með eitt mark í plús en Danmörk eitt mark í mínus.

Ef Ísland og Ungverjaland gera jafntefli eða Ungverjar vinna eru heims- og Ólympíumeistarar Dana úr leik.

Geri Ísland og Ungverjaland jafntefli fara bæði liðin með eitt stig í milliriðla. Vinni Ungverjar fara þeir áfram með tvö stig en Íslendingar ekkert.

Í milliriðli II, sem verður leikinn í Malmö, fara tvö efstu liðin úr D-, E- og F-riðli. Ljóst er að Noregur og Portúgal fara áfram úr D-riðli og Ísland úr E-riðli.

Hvert lið leikur fjóra leiki í milliriðli II. Þeir fara fram 17., 19., 21. og 22. janúar.

Tvö efstu liðin fara í undanúrslit en liðið í 3. sæti milliriðilsins leikur um 5. sætið á mótinu.


Tengdar fréttir

Uppgjör Henrys: Rússneski björninn á hlaðborði strákanna okkar

Strákarnir okkur buðu til veislu í Malmö Arena í kvöld. Veisla sem verður lengi í minnum höfð. Stórkostlegur leikur hjá þeim og frábær ellefu marka sigur, 34-23, í húsi. Það voru engir aukaleikarar í kvöld. Bara stjörnur sem blómstruðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×