Handbolti

Ísland aldrei unnið stærri sigur á EM en í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk gegn Rússum og var markahæstur Íslendinga ásamt Alexander Petersson og Sigvalda Guðjónssyni.
Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk gegn Rússum og var markahæstur Íslendinga ásamt Alexander Petersson og Sigvalda Guðjónssyni. vísir/epa

Ísland vann ellefu marka sigur á Rússlandi, 34-23, í öðrum leik sínum í E-riðli Evrópumótsins 2020 í handbolta í dag. Þetta er jöfnun á stærsta sigri Íslands á EM frá upphafi.

Á EM í Svíþjóð 2002 unnu Íslendingar ellefu marka sigur á Svisslendingum, 33-22, í lokaleik sínum í C-riðli.

Það var stærsti sigur Íslands á EM í 18 ár, eða þar til íslenska liðið jafnaði það með sigrinum á Rússlandi í dag.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk í stórsigrinum á Sviss fyrir 18 árum. Hann er enn í íslenska liðinu en fékk hvíld í leiknum gegn Rússlandi í dag.

Guðmundur Guðmundsson hefur stýrt íslenska landsliðinu til stærstu sigra þess á EM. Hann var þjálfari Íslands á EM 2002 sem var jafnframt hans fyrsta stórmót sem þjálfari landsliðsins. Guðmundur er núna á sínu fimmta Evrópumóti sem þjálfari Íslendinga.

Ísland hefur þrisvar sinnum unnið átta marka sigur á EM; á Júgóslavíu 2002, Ungverjalandi 2008 og Rússlandi 2010. Guðmundur var þjálfari íslenska liðsins 2002 og 2010 en Alfreð Gíslason 2008.

Ísland er komið áfram í milliriðil II á EM 2020 en þarf að vinna Ungverjaland á miðvikudaginn til að taka með sér tvö stig.

Stærstu sigrar Íslands á EM

+11 Ísland 34-23 Rússland, EM 2020

+11 Ísland 33-22 Sviss, EM 2002

+8 Ísland 34-26 Júgóslavía, EM 2002

+8 Ísland 36-28 Ungverjaland, EM 2008

+8 Ísland 38-30 Rússland, EM 2010

+6 Ísland 31-25 Slóvenía, EM 2002

+6 Ísland 28-22 Slóvakía, EM 2008

+6 Ísland 27-21 Ungverjaland, EM 2012

+6 Ísland 33-27 Austurríki, EM 2014


Tengdar fréttir

Uppgjör Henrys: Rússneski björninn á hlaðborði strákanna okkar

Strákarnir okkur buðu til veislu í Malmö Arena í kvöld. Veisla sem verður lengi í minnum höfð. Stórkostlegur leikur hjá þeim og frábær ellefu marka sigur, 34-23, í húsi. Það voru engir aukaleikarar í kvöld. Bara stjörnur sem blómstruðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×