Innlent

Mikill eldur kom upp í þriggja hæða fjöl­býlis­húsi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Miklar skemmdir urðu á húsinu af völdum elds og reyks.
Miklar skemmdir urðu á húsinu af völdum elds og reyks. Vísir/Vilhelm

Mikill eldur kom upp í íbúð í þriggja hæða fjölbýlishúsi í Hafnarfirði um klukkan tvö í nótt. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á vettvang og þegar að var komið var íbúi íbúðarinnar kominn út. Á hæðinni fyrir ofan höfðu íbúar þar, móðir og tvö börn hennar, náð að forða sér út á svalir og biðu þar björgunar. Ekki var hægt að nota stigahús fjölbýlishússins vegna mikils reyks.

Þegar slökkviliðsmenn fóru inn í húsið kom í ljós að mikill eldur logaði í eldhúsi íbúðarinnar og reykur kominn um allt húsið. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar.

Varðstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sagði í samtali við fréttastofu að greiðlega hafi gengið að slökkva eldinn en að miklar skemmdir hafi orðið í húsinu af völdum elds og reyks.

Slökkvistarf tók um tvær klukkustundir. Lögregla hefur tildrög brunans til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×