Innlent

„Rúgbrauð í fernu frá Sigrúnu Ernu“ hafa slegið í gegn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigrún Erna, rúgbrauðmeistari Reykholts í Biskupstungum í Bláskógabyggð.
Sigrún Erna, rúgbrauðmeistari Reykholts í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

„Rúgbrauð í fernu frá Sigrúnu Ernu“, eru rúgbrauð, sem slegið hafa í gegn í Reykholti í Biskupstungum í sumar en rúgbrauðin eru bökuð í Reykholtshver og borðuð með þykku lagi af smjöri.

Sælkeragöngur í Reykholti í Biskupstungum í Bláskógabyggð í sumar hafa slegið algjörlega í gegn en boðið hefur verið upp á göngurnar á hverjum föstudegi frá 11:00 til 13:00 . Herdís Friðriksdóttir hefur séð um göngurnar og miðlað skemmtilegum fróðleik um svæðið.

„Til þess að lokka fólk inn þá þarf að gefa því eitthvað að borða þess vegna fáum við aðeins að smakka, það er svo skemmtilegt,“ segir Herdís.

Herdís Friðriksdóttir hefur stýrt göngunum í sumar. Hér er hún með nokkrum þátttakendum að spá í nöfnin á fjöllunum í uppsveitum ÁrnessýsluMagnús Hlynur Hreiðarsson.

Þeir sem hafa tekið þátt í göngunum hafa fengið að smakka af heimagerðu konfekti frá veitingastaðnum Mika og grænmeti og berum frá garðyrkjubændum. Þá hafa rúgbrauð, sem bökuðu eru í hvernum í Reykholti vakið mikla lukku hjá göngugestum en það er rúgbrauðsmeistari Reykholts, Sigrún Erna, sem á heiðurinn af bakstrinum en hún bakar brauðin undir merkjunum; „Rúgbrauð í fernu frá Sigrúnu Ernu“.

„Galdurinn við gott rúgbrauð er að það sé nógu klístrað þegar þú borðar það þannig að það sitji svolítið vel í munninum á eftir en hráefnið er náttúrulega bara íslensk súrmjólk, púðursykur og hitt er leyndarmál,“ segir Sigrún Erna og hlær. 

Hún segir frábært að baka brauðið úr hvernum. 

„Já, þetta er forréttindi að fá að vera hérna og nota þennan pott, þetta er glænýr pottur, sem var gerður fyrir okkur í fyrra og síðan ég flutti í sveitina aftur fyrir sex árum síðan þá byrjaði ég að baka brauð eftir uppskrift frá mömmu, sem hún fékk uppskriftina frá konu hér í sveitinni þannig að þetta er bara sveitarúgbrauð.“

Síðustu sælkeragöngur sumarsins verða farnar næstu tvo föstudaga, 7. og 14. ágúst og hefjast þær klukkan 11:00 við veitingastaðinn Mika í Reykholti.

Þeir hundruð gesta sem hafa tekið þátt í sælkeragöngunum í sumar hafa hámað í sig rúgbrauðin frá Sigrúnu Ernu.Magnús Hlynur Hreiðarsson.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.