Fótbolti

Sjáðu mörkin sem færðu Real Madrid nær 34. Spánarmeistaratitlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Granada. Hann hefur skorað fimm mörk í níu leikjum síðan keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.
Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Granada. Hann hefur skorað fimm mörk í níu leikjum síðan keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn. getty/Fermin Rodriguez

Real Madrid er einum sigri frá 34. Spánarmeistaratitlinum eftir að hafa lagt Granada að velli, 1-2, í gær.

Real Madrid er með fjögurra stiga forskot á Barcelona á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

Með sigri á Villarreal á Santiago Bernabéu á fimmtudaginn verður Real Madrid spænskur meistari. Engu breytir hvernig leikur Barcelona og Osasuna á Nývangi fer.

Ferland Mendy kom Real Madrid yfir gegn Granada í gær eftir tíu mínútna leik. Hann skoraði þá með skoti upp í þaknetið úr þröngu færi. Þetta var fyrsta mark Frakkans fyrir Real Madrid.

Sex mínútum síðar bætti landi hans, Karim Benzema, öðru marki við með skoti í fjærhornið. Hann er næstmarkahæstur í spænsku deildinni með nítján mörk. Lionel Messi er markahæstur með 22 mörk.

Darwin Machís minnkaði muninn í 1-2 fyrir Granada á 50. mínútu en nær komust heimamenn ekki. Þeir sigla lygnan sjó í 10. sæti deildarinnar.

Mörkin úr leik Granada og Real Madrid má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Real Madrid vann níunda leikinn í röð

Real Madrid hefur unnið alla níu deildarleiki sína eftir að keppni hófst á ný vegna kórónuveirufaraldursins. Markatalan í þessum níu leikjum er 17-3.

Real Madrid á einnig möguleika á að vinna Meistaradeild Evrópu en liðið mætir Manchester City í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitunum 7. ágúst. City vann fyrri leikinn á Santiago Bernabéu, 1-2. Sigurvegarinn í rimmu Real Madrid og City mætir annað hvort Lyon eða Juventus í átta liða úrslitunum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.