Sport

Ekki lengur rauðskinnar en eiga eftir að finna nýtt nafn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fyrrverandi merki Washington Redskins.
Fyrrverandi merki Washington Redskins. getty/Drew Angerer

Washington Redskins tilkynnti í dag að nafni og merki félagsins verði breytt. Unnið er að því að finna nýtt nafn og nýtt merki fyrir félagið.

Redskins (ísl. rauðskinnar) vísar til frumbyggja Norður-Ameríku og þykir niðrandi. Í merki Redskins, sem verður nú breytt, er mynd af indiánahöfðingja.

Fyrr í þessum mánuði sendi Washington frá sér yfirlýsingu þess efnis að það ætlaði að endurskoða nafn félagsins.

Stærsti styrktaraðili Washington, póstþjónustan FedEx, krafðist þess að nafni félagsins yrði breytt. Öflugir fjárfestar höfðu einnig sett pressu á Washington að breyta nafninu.

Þá hafði mótmælaaldan í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd einnig áhrif á þá ákvörðun Washington að fella Redskins úr nafni félagsins og breyta merkinu. Forráðamenn Washington eiga þó enn eftir að finna nýtt nafn á félagið. 

Washington var stofnað 1932 og ári seinna var Redskins nafnið tekið upp. Félagið hefur fimm sinnum orðið NFL-meistari, síðast 1991.

Klippa: Fornfrægt NFL-félag breytir um nafn
NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.