Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 1-3 | Valskonur með fullt hús stiga eftir hörkuskemmtun á Hásteinsvelli

Einar Kárason skrifar
Elín Metta gerði tvö mörk í kvöld.
Elín Metta gerði tvö mörk í kvöld. vísir/vilhelm

Hart var barist á Hásteinsvelli í dag þegar Eyjastúlkur tóku á móti Val, en þær rauðklæddu mættu til leiks með fullt hús stiga. Fór það svo að gestirnir frá Hlíðarenda voru áfram með fullt hús stiga að leik loknum en þær unnu 3-1 sigur í kvöld.

Strax á eftir 5 mínútna leik var Elín Metta Jenssen búin að koma boltanum í netið með snyrtilegu vinstri fótar skoti, en þetta var líklega í fyrsta skiptið í leiknum sem boltinn fór inn í annan hvorn teiginn. Liðin skiptust svo á að skjóta á markið en Dóra María Lárusdóttir komst næst því að skora þegar skot hennar fór hárfínt framhjá marki heimastúlkna.

Guðný Geirsdóttir átti fínan leik í markinu hjá ÍBV en hún bjargaði frábærlega í tvígang þegar hún varði fast skot Dóru Maríu í stöng og var svo fljót á fætur og náði að loka á Elínu Mettu sem var mætt í frákastið.

ÍBV náðu ágætis haldi á leiknum seinni partinn í síðari hálfleik og sköpuðu nokkur fín færi en án þess að koma boltanum framhjá Söndru Sigurðardóttur í marki Vals. Olga Sevcova og Miyah Watford komust næst því að skora en allt kom fyrir ekki.

Þær rauðklæddu leiddu því með marki þegar flautað var til hálfleiks.

Margir áhorfendur voru varla sestir þegar Valur tvöfaldaði forustuna þegar Elín Metta snéri aftur á vörn ÍBV og skoraði framhjá Guðnýju. Svekkjandi fyrir Eyjastúlkur sem höfðu vel verið inni í leiknum fyrir lok fyrri hálfleiks og róðurinn nú orðinn erfiður.

Heimaliðið gafst þó ekki auðveldlega upp og minnkaði Grace Hancock muninn með góðum skalla eftir frábæra fyrirgjöf Olgu úr aukaspyrnu utan af kanti. Innan við 10 mínútum síðar tvöfölduðu gestirnir þó forustuna á ný þegar Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði eftir sendingu frá Elínu Mettu.

Danielle Sultana Tolmais kom inn í lið ÍBV þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum og kom sér strax í dauðafæri en Sandra sá við henni. Danielle var svo aftur á ferðinni stuttu síðar eftir að hafa fengið sendingu yfir vörn gestanna en skot hennar varið af Söndru. Þar á milli hafði Guðný varið vel frá Elínu Mettu.

Lokafæri leiksins kom í uppbótartíma þegar Danielle átti sendingu á Myiah á fjærstönginni en Sandra varði boltann, og þrátt fyrir að missa hann úr höndunum náði hún að bjarga því að boltinn færi yfir línuna.

Stuttu síðar flautaði dómarinn til loka síðari hálfleiks í hörkuskemmtilegum leik. Valskonur því með fullt hús stiga eftir 4 leiki en ÍBV sitja eftir með sárt ennið.

Af hverju vann Valur?

Góð byrjun í báðum hálfleikjum tóku Eyjastúlkur úr jafnvægi. Elín Metta var fremst meðal jafningja og þegar hún er í stuði þá er erfitt við hana að eiga.

Hver stóðu upp úr?

Elín Metta var frábær í liði Vals. Sandra í markinu varði oft á tíðum vel og var Valsliðið heilt yfir mjög gott í dag.

Hjá ÍBV voru Guðný Geirsdóttir og Helena Jónsdóttir áberandi öflugar. Olga var virkilega spræk framan af. Rétt eins og hjá Valsliðinu er ekki hægt að taka neitt af Eyjaliðinu þar sem þær spiluðu oft á tíðum virkilega vel í dag.

Hvað gekk illa?

Færanýting ÍBV í þessum leik varð þeim að falli. Þær stóðu vel í sterku Valsliði en þegar þú skorar bara eitt mark gegn þremur er erfitt að vinna leiki.

Hvað gerist næst?

Hver veit? ÍBV og Valur mætast aftur bráðlega en þá í Mjólkurbikarnum en miðað við stöðuna í þjóðfélaginu skulum við bara horfa frá degi til dags.

Andri: Ég væri frekar til í að spila 10 lélega leiki og fá 30 stig heldur en 10 góða og fá 0 stig

,,Ég er bara svekktur. Ég er svekktur að fá á mig mark á fyrstu 5 mínútu í fyrri hálfleik og annarri mínútu í seinni hálfleik,” sagði Andri Ólafsson, þjálfari ÍBV, eftir leik.

,,Við sköpum meira en nóg af færum til að fá eitthvað út úr þessum leik.”

Leikurinn fór rólega af stað en fyrsta færi leiksins reyndist mark þegar Elín Metta snéri á vörn ÍBV og skoraði með góðu skoti. 

,,Bara geggjað mark hjá henni. Við unnum okkur svo inn í leikinn og þegar leið á fyrri hálfleikinn fannst mér við bara hreinlega betri og líklegri. Svo byrjar seinni hálfleikurinn aftur með því að hún fær boltann, snýr og skorar.”

,,Við sköpuðum nóg af færum. Það er margt jákvætt í þessum leik. Það er bara að láta ekki aðeins á þær reyna því það er komið skjálfti í þær þegar við minnkum í 2-1 en þá fáum við bara strax þriðja markið á okkur. Við reyndum í lokin og við sköpuðum fullt af færum og þær fengu fullt af færum en ég er bara svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr þessu.”

ÍBV unnu fyrsta leik sumarsins en síðustu þrír hafa endað með tapi þrátt fyrir fína spilamennsku á köflum. 

,,Þetta var fínn leikur í dag og allt það en það telur ekki neitt. Ég væri frekar til í að spila 10 lélega leiki og fá 30 stig heldur en 10 góða og fá 0 stig. Það er á hreinu."

Pétur: Kemur alltaf pressa í stöðunni 2-1 eða 1-0

,,Ég var bara mjög ánægður með þetta. Fín þrjú stig en mér finnst persónulega alltaf erfitt að koma hingað og spila. Það var það sérstaklega í seinni hálfleik. Mér fannst við eiga það virkilega skilið að skora mörk í fyrri hálfleik en staðan er bara 1-0 í hálfleik og það var mjög gott að skora annað markið snemma.”

,,Auðvitað kemur alltaf pressa í stöðunni 2-1 eða 1-0. Það er alltaf pressa að þú getir fengið jöfnunarmarkið á þig. Við bara kláruðum þennan leik,” sagði Pétur um hvort það hafi komið skjálfti í lið Vals þegar Eyjastúlkur minnkuðu muninn áður en gestirnir skoruðu þriðja mark sitt. 

,,Þær settu smá pressu á okkur í aukaspyrnum og hornspyrnum og svona, annars var nú ekki neitt mikið annað. Við klárum þetta með þriðja markinu.”

Valskonur eru með fullt hús stiga eftir 4 leiki. Aðspurður hvort hann sæi ekki fram á bjart sumar svaraði Pétur stuttorður: ,,Við vonum það.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira