Erlent

Mótmælin teygja anga sína víðar um Bandaríkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur og lögregluþjónar í Los Angeles.
Mótmælendur og lögregluþjónar í Los Angeles. AP/Ringo H.W. Chiu

Mótmæli vegna dauða George Floyd teygja nú anga sína víðsvegar um Bandaríkin. Þau hafa staðið yfir í fjóra daga eftir að myndbönd birtust á samfélagsmiðlum sem sýna lögregluþjón setja hné sitt á háls Floyd á meðan hann kvartaði yfir því að geta ekki andað. Lögregluþjónninn hefur verið handtekinn og ákærður fyrir morð. Hann og þrír aðrir hafa verið reknir. Það virðist þó ekki hafa dregið úr reiði mótmælenda og kom víða til átaka á milli mótmælenda og lögregluþjóna í nótt.

Stór mótmæli hafa átt sér stað í mörgum af stærstu borgum Bandaríkjanna. Þau snúa ekki eingöngu að dauða Floyd heldur einnig því hve oft svartir menn eru skotnir til bana af lögregluþjónum í Bandaríkjunum eða deyja af öðrum völdum í haldi lögreglu.

Þjóðvarðlið hefur verið kallað til víða um Bandaríkin þar sem mótmæli hafa breyst í óeirðir. Þá hefur þjóðvarðlið verið sett í viðbragðsstöðu í Washington DC þar sem einhverjir mótmælendur hafa reynt að komast í gegnum tálma lífvarðasveitar forseta Bandaríkjanna.

Íbúar Minneapolis reyna að slökkva eld í bíl.AP/Richard Tsong-Taatarii

Í Atlanta í Georgíu kom til óeirða við höfuðstöðvar CNN í borginni, þar sem lögreglustöð er einnig í húsinu. Lögreglan þar segir minnst þrjá lögregluþjóna vera særða eftir að mótmælendur brutu rúður og köstuðu múrsteinum, flöskum og jafnvel hnífum.

Í New York kom til átaka þar sem þúsundir manna mótmæltu á götum borgarinnar. Einhverjir köstuðu flöskum og rusli að lögregluþjónum sem svöruðu með piparúða. New York Times segir skemmdir hafa verið unnar á lögreglubílum og kveikt hafi verið í minnst einum þeirra.

Þrátt fyrir útgöngubann í Minneapolis, þar sem Floyd dó, hefur komið til átaka á milli mótmælenda og lögreglu. Reuters segir um 500 mótmælendur hafa hunsað útgöngubannið og mótmælt við brunarústir lögreglustöðvar sem kveikt var í á dögunum.

Lögregluþjónar skutu táragasi og plastkúlum að mótmælendum til að dreifa þeim. Mótmælendur komu einnig saman við aðra lögreglustöð í borginni þar til þeim var einnig dreift með táragasi og plastkúlum. Kveikt var í nærliggjandi banka og pósthúsi.

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, hvatti fólk til að fara heim í morgun, bæði á Twitter og á blaðamannafundi.

Hann sagði ástandið vera orðið hættulegt og ekki væri hægt að búa við það lengur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.