Innlent

Hefur safnað 40 milljónum: "Ótrúlega þakklátur fyrir stuðninginn"

Boði Logason skrifar
Guðmundur Felix Grétarsson, er búinn að safna 40 milljónum. Hann segist ótrúlega þakklátur fyrir stuðninginn frá fólki.
Guðmundur Felix Grétarsson, er búinn að safna 40 milljónum. Hann segist ótrúlega þakklátur fyrir stuðninginn frá fólki. Mynd/stöð 2
„Ég fór út í þetta með það markmið að ég myndi ekki hætta fyrr en þetta myndi takast, en ég vissi ekki hversu langan tíma þetta tæki," segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem hóf að safna fyrir handaágræðslu í september síðastliðnum en aðgerðin mun fara fram í Frakklandi.

Guðmundur Felix missti báða handleggi í vinnuslysi árið 1998 og hóf söfnun eftir að hann fékk grænt ljós frá læknum, þann 9. september síðastliðinn, um að fara í handaágræðslu. Hann hóf söfnun og þurfti 40 milljónir til að komast í aðgerðina. Það hefur nú tekist.

„Það er rosalega góð tilfinning að þessu verkefni sé lokið. Ég er alveg ótrúlega þakklátur þeim sem hjálpuðu mér, það eru þúsundir manna búnir að styrkja þetta verkefni. Ég á ekki orð yfir því hvað þetta er búið að ganga vel og er ótrúlega þakklátur fyrir allan þennan stuðning," segir Guðmundur Felix í samtali við Vísi nú í morgun.

Hann segir næstu skref hjá sér vera að flytja út til Frakklands og þar taki við bið eftir að komast í aðgerð. „Núna er ég að ganga frá íbúðinni minni en ég er að reyna losa mig við hana. Það er einn Ítali á undan mér í aðgerðina, ég er bara að bíða eftir að hann detti út af biðlistanum. Núna tekur bara bið við hjá mér," segir Guðmundur Felix sem mun flytja út til Frakklands á næstu mánuðum.

Guðmundur þurfti 40 milljónir til að komast í aðgerðina og hefur hann nú safnað þeirri upphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×