Erlent

Írakar hafa loks fundið nýjan forsætisráðherra

Andri Eysteinsson skrifar
Mohammed Tawfiq Allawi, nýr forsætisráðherra Írak.
Mohammed Tawfiq Allawi, nýr forsætisráðherra Írak. Getty/Anadolu

Barham Salih, forseti Írak, hefur skipað nýjan forsætisráðherra landsins rúmum tveimur mánuðum eftir Adil Abdul-Mahdi sagði af sér embætti. Nýr forsætisráðherra er fyrrum samskiptamálaráðherrann Mohammed Tawfiq Allawi. BBC greinir frá.

Allawi hefur nú einn mánuð til þess að mynda ríkisstjórn sem hann mun leiða þar til að kosið verður til þings. Allawi hefur þegar lýst yfir stuðningi sínum við mótmælin sem hafa geisað í landinu síðustu fjóra mánuði og urði til þess að fyrirrennari hans sagði af sér.

Í síðustu viku höfðu borist fregnir að Salih forseti hafi sett þingmönnum afarkosti. Var þeim gefinn stuttur frestur til þess að útnefna forsætisráðherra, ellegar tæki Salih málin í sínar hendur.

Mohammed Tawfiq Allawi er 65 ára gamall og stundaði nám í arkitektúr við háskólann í Baghdad þegar hann neyddist til að flýja land undan ríkisstjórn Saddam Hussein. Allawi kláraði nám í Líbanon og fluttist síðar búferlum til Bretlands. Allawi gegndi síðar ráðherraembætti í tvígang, 2006-2007 og 2010-2012 í bæði skiptin sagði hann af sér til að mótmæla stefnum þáverandi forsætisráðherra, Nouri al-Maliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×