Körfubolti

Martin stefnir á að reyna fyrir sér í NBA-deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin varð bikarmeistari með Alba Berlín fyrr á þessu ári áður. Hann stefnir nú á NBA-deildina.
Martin varð bikarmeistari með Alba Berlín fyrr á þessu ári áður. Hann stefnir nú á NBA-deildina. Vísir/City-Press

Martin Hermannsson, leikmaður Alba Berlín í þýsku úrvalsdeildinni og EuroLeague, stefnir á að reyna fyrir sér í NBA-deildinni en samningur hans við þýska liðið rennur út í sumar. Segist hann nú þegar vera búinn að fá boð um að koma og æfa.

Þetta kemur fram í hlaðvarpinu Boltinn Lýgur Ekki á miðlinum Karfan.is. Þar fór Martin, sem er KR-ingur í húð og hár, yfir ferilinn til þessa og hvað framtíðin ber í skauti sér. Gaf hann það beint út að hann stefndi á að reyna fyrir sér í sumardeild NBA-deildarinnar næsta sumar.

Tryggvi Hlinason, samherji Martins í íslenska landsliðinu og leikmaður Zaragoza í spænsku úrvalsdeildinni, reyndi fyrir sér í sumardeild NBA 2018 þegar hann lék með Toronto Raptors. Hann fékk ekki samning hjá liðinu sem varð NBA-meistari síðasta vor.

Martin er alvarlega að íhuga að taka boðinu og þar með að taka þátt í sumardeildinni þar sem samningur hans við Berlínarliðið er að renna út, það er hins vegar enn óvíst hvort tímabilið í Þýskalandi verði klárað. 

„Það er allt í rugli og maður veit ekki hvernig þetta verður. Ég veit ekki hvort ég klári tíma­bilið með Alba Berlín,“ sagði Mart­in í hlaðvarpinu. Þá vildi hann ekki gefa upp hvaða NBA-lið hefði boðið honum til æfinga.

Martin telur að reynsla hans úr EuroLeague, Evrópudeildinni í körfubolta og einni sterkustu deildí heimi, hafi sýnt honum að hann gæti vel spilað við þá bestu og að allir körfuboltamenn hefðu þann draum um að spila í NBA-deildinni.

Nú er bara að bíða og sjá hvort draumur Martins verði að veruleika.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.