Erlent

Forseti rannsóknarráðs ESB hættir og gagnrýnir sambandið harðlega vegna viðbragða við kórónuveirunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Mauro Ferrari, sem hefur stýrt ráðinu frá því í janúar sagðist hafa átt í deilum við leiðtoga framkvæmdastjórnar ESB og sagðist hann sömuleiðis hafa misst trú sína á kerfinu.
Mauro Ferrari, sem hefur stýrt ráðinu frá því í janúar sagðist hafa átt í deilum við leiðtoga framkvæmdastjórnar ESB og sagðist hann sömuleiðis hafa misst trú sína á kerfinu. EPA/PATRICK SEEGER

Forseti Evrópska rannsóknarráðsins hætti í stöðu sinni í gær. Á leið sinni út um dyrnar gagnrýndi hann Evrópusambandið harðlega fyrir viðbrögð þess vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Mauro Ferrari, sem hefur stýrt ráðinu frá því í janúar sagðist hafa átt í deilum við leiðtoga framkvæmdastjórnar ESB og sagðist hann sömuleiðis hafa misst trú sína á kerfinu.

Meðal þess sem Ferrari, sem er frá Ítalíu og Bandaríkjunum, gagnrýndi í yfirlýsingu sinni var alger skortur á samhæfingu heilbrigðisráðuneyta aðildarríkja ESB og skortur á fjárveitingum til vísindamanna vegna faraldursins. Hann gagnrýndi sömuleiðis einhliða ákvarðanatöku forsvarsmanna aðildarríkja varðandi lokanari landamæra og deilur varðandi efnahagsaðgerðir.

Sjá einnig: Deila um neyðarlán og skuldir ESB-ríkja

Í tilkynningu til AP fréttaveitunnar segir Johannes Bahrke, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, að þeir 19 sem sitja í rannsóknarráðinu með Ferrari hafi þann 27. mars haldið atkvæðagreiðslu og verið sammála um að krefjast afsagnar hans.

Bahrke segir einnig að ESB hafi gripið til einhverjar umfangsmestu aðgerðir heimsins gegn útbreiðslu kórónuveirunnar og rannsóknarráðið sjálft taki nú þátt í 50 rannsóknarverkefnum sem snúa að faraldrinum.

Sjá einnig: Framtíð ESB að veði í deilum um efnahagsleg viðbrögð

Christian Ehler, þýskur evrópuþingmaður, slær á svipaða strengi og Bahrke í samtali við Politico. Hann segir að Ferrari hafi viljað hverfa frá hefðbundnum starfsháttum rannsóknarráðsins með aðgerðum sem hann líkir við gluggaskraut.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.