Innlent

Afar spenntur fyrir rafrænu eftirliti

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Mynd/GVA
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, er afar spenntur fyrir hugmyndum um rafrænt eftirlit með föngum. Hann segir fjölda fanga treystandi til að ljúka afplánun sinni með þessum hætti. Páll bendir á að þetta form eftirlits geti verið kostnaðarsamt.

Hugsanlega verður afbrotamönnum á Íslandi innan tíðar gert kleift að ljúka hluta afplánunar með rafrænu eftirliti. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, segir að í ráðuneytinu sé nú unnið að gerð frumvarps sem felur í sér að innleiddar verði reglur þar að lútandi. Frumvarpinu er einnig ætlað að rýmka reglur um reynslulausn og auka heimildir fanga til að afplána refsingu með samfélagsþjónustu. Rafrænt eftirlit er mjög íþyngjandi að mati Rögnu sem segir að ekki sé verið að gefa neinn afslátt af refsingu fanga.

„Já, mikil ósköp. Þetta er svo sannarlega hugmynd sem hugnast mér. Stefna okkar og ráðuneytisins er að auka vægi afplánunar fyrir utan fangelsi," segir Páll aðspurður um málið.

Páll segir að nákvæm útfærsla liggi ekki fyrir. Verði farin samskonar leið og á Norðurlöndunum sé ljóst að það gæti orðið kostnaðarsamt. Þar eru fangar að öllu jafna með ökklaband og þá taki fangaverðir og félagsráðgjafar einnig þátt í eftirlitinu. Páll segir ódýrari leiðir í boði eins og til dæmis að fylgjast með föngum í gegnum síma þeirra.

Páll segir ljóst að þetta úrræði verði ekki fyrir alla fanga. „Þetta yrðu að sjálfsögðu bara menn sem við treystum og væru búnir að vera lengi í afplánun. Okkur vantar vissulega pláss fyrir hættulega glæpamenn en það eru menn inn á meðal sem er fullkomlega treystandi í þetta."




Tengdar fréttir

Enginn afsláttur gefinn með rafrænu eftirliti

Í dóms- og mannréttindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem felur meðal annars í sér í sér að innleiddar verði reglur sem gera afbrotamönnum kleift að ljúka hluta afplánunar með rafrænu eftirliti. Rafrænt eftirlit er mjög íþyngjandi að mati Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannaréttindaráðherra. Hún segir að ekki sé verið að gefa neinn afslátt af refsingu fanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×