Innlent

Enginn afsláttur gefinn með rafrænu eftirliti

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir.
Í dóms- og mannréttindaráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps sem felur meðal annars í sér í sér að innleiddar verði reglur sem gera afbrotamönnum kleift að ljúka hluta afplánunar með rafrænu eftirliti. Slíkt eftirlit er mjög íþyngjandi að mati Rögnu Árnadóttur, dóms- og mannaréttindaráðherra. Hún segir að ekki sé verið að gefa neinn afslátt af refsingu fanga verði þetta fyrirkomulagið tekið upp hér á landi.

Ragna segir að með rafrænu eftirliti sé átt við að fangi verði að halda sig á ákveðnu svæði, til að mynda heima hjá sér. Hann geti auk þess átt möguleika á að sækja vinnu. Ragna segir ljóst að þetta form henti alls ekki öllum föngum líkt og samfélagsþjónusta og reynslulausn henti ákveðnum hópum ekki.

Nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir, að sögn Rögnu. Einnig er óvíst hvort að Fangelsismálastofnun komi til með að sinna eftirlitinu eða utanaðkomandi aðili.

Ragna telur að rafrænt eftirlit sé verulega íþyngjandi fyrir fanga. „Það er ekki eins og verið sé að sleppa mönnum með refsingu heldur verða þeir að halda sig á ákveðnu svæði og auðvitað er það mjög íþyngjandi. Að mínu mati er ekki verið að gefa afslátt af refsingunni."

Frumvarpinu sem nú er unnið að í ráðuneytinu er einnig ætlað að rýmka reglur um reynslulausn og auka heimildir svo fangar geti afplánað refsingu með samfélagsþjónustu.

Ragna segir að frumvarpið sé alls ekki allsherjarlausn á vandamálum fangelsanna. Yfirvöld standi frammi fyrir miklum vanda. Nú séu 240 á biðlista í afplánun refsingar og 1600 bíði eftir að hefja afplánun vegna vararefsingar þar sem þeir hafi ekki greitt sektir.

Þá telur Ragna nauðsynlegt að hugað verði að varanlegri lausn að nýju fangelsi því núverandi ástand sé óviðunandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×