Innlent

Saka ríkisstjórnina um árás

Árni Sigfússon
Árni Sigfússon

Ríkisstjórnin virðist aðeins geta komið sér saman um eitt atriði varðandi sölu Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku, og það er að ráðast á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ. Þetta er fullyrt í opnu bréfi bæjarstjóra og formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar til iðnaðarráðherra.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið að 65 ára leigutími Reykjanesbæjar á orkuauðlindum til HS Orku væri of langur, og farið væri gegn anda laganna.

Í opnu bréfi Árna Sigfússonar bæjarstjóra og Böðvars Jónssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, er bent á að afskriftartími virkjana Landsvirkjunar sé sextíu ár. Ógerningur sé að hafa leigutíma virkjunar skemmri en afskriftartíma.

Í bréfinu segir að árásir iðnaðarráðherra séu sérlega ómaklegar í ljósi þess að Reykjanesbær hafi gengið fram fyrir skjöldu og greitt um milljarð króna til að tryggja að landið og auðlindirnar yrðu áfram í opinberri eigu. Hefði það ekki verið gert hefðu auðlindirnar verið í eigu HS Orku, og því raunverulegur möguleiki á að þær kæmust í meirihlutaeigu útlendinga.

Bæjaryfirvöld hafna því að samningur bæjarins við HS Orku sé ekki í anda laganna. Hann sé þvert á móti algerlega samkvæmt lögum og í þeirra anda. Það staðfesti bæði lögmenn og þingmenn sem staðið hafi að lagasetningunni.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×