Innlent

Bera hag Tjarnarinnar fyrir brjósti

Freyr Bjarnason skrifar
Meðlimir í Fuglaverndarfélagi Íslands hittast í Vatnsmýrinni í dag.
Meðlimir í Fuglaverndarfélagi Íslands hittast í Vatnsmýrinni í dag. Fréttablaðið/Pjetur
Meðlimir í Fuglaverndarfélagi Íslands ætla að fjölmenna í friðlandinu í Vatnsmýrinni í dag og tína þar rusl og fleira.

„Hluti af friðlandinu er að breytast í skóglendi. Það þarf að klippa runna og fjarlægja trjáplöntur af hluta svæðisins. Þetta á að vera votlendi, ekki skógur. Síðan eru síkin og bakkarnir hálffull af rusli,“ segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands, aðspurður.

„Ég held að mikilvægið í þessum litla viðburði sé að vekja fólk til vitundar um að framtak þess skiptir máli. Það eiga allir að bera hag Tjarnarinnar í brjósti. Ekki sitja bara þegjandi, heldur ef þeir mögulega geta að taka til hendinni og láta sig málið varða,“ segir Ólafur Karl.

Fuglavernd stofnaði í fyrra með Norræna húsinu hópinn Hollvini Tjarnarinnar sem hefur þann tilgang að hlúa að lífríki Reykjavíkurtjarnar. „Við áttum ágæta stund í fyrra. Ef þetta heldur áfram eru menn að hugsa stærra en bara að hirða rusl. Eitt af þeim verkum er að eyða hvönninni í Torfinnshólmi. Kríurnar verpa þar en hvönnin er nokkurn veginn að úthýsa henni,“ segir Ólafur.

Í nýlegri skýrslu kom fram að aldrei frá upphafi mælinga á fuglalífi Tjarnarinnar hafa andapör verið jafn fá og í fyrra. „Ástandið hefur verið mjög dapurlegt en það eru metnaðarfull plön í gangi. Borgin hefur verið eins og sofandi risi gagnvart Tjörninni en núna er eins og hann sé að fara að rumska.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×