Erlent

Chavez enn forseti Venesúela

Hugo Chavez, virðist hafa staðið af sér atlögu þeirra sem vildu reka hann úr embætti forseta Venesúela, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnarandstaðan sakar hann um stórfellt kosningasvindl. Chaves er vinstri sinnaður fyrrverandi hermaður, og lítill vinur Bandaríkjanna, sem hann sendir ósjaldan tóninn. Hann telur sig sérstakan málsvara hinna efnaminni í Venesúela. Hann hefur notað olíuauð landsins óspart til þess að kenna fátækum að lesa, veita þeim ókeypis heilbrigðisþjónustu og styrkja efnilegt námsfólk til framhaldsmenntunar. Fátækir íbúar landsins elska því Chavez, en þeir sem eru betur stæðir hata hann, og vilja reka hann frá völdum. Til þess var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í gær, en Chaves vann þar með miklum yfirburðum. Andstæðingarnir saka hann um stórfellt kosningasvindl, en alþjóðlegir eftirlitsmenn taka ekki undir þær fullyrðingar. Venesúela er fimmta stærsta olíuútflugningsríki heims, og óvissan um pólitíska framtíð forsetans hjálpaði til við að koma olíuverði upp úr öllu valdi. Nokkuð sló á það, eftir að ljóst var að Chaves hafði sigrað, og ekki fylgdu neinar óeirðir í kjölfarið. Chaves sagði í ræðu í gærkvöldi, að Venesúela myndi sýna ábyrgð í olíuframleiðslu, og gera það sem í valdi landsins stæði til þess að koma einhverjum skikk á olíuverðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×