Erlent

Róstur í Úsbekistan

Í odda skarst milli hermanna og mótmælenda í Andijan í austurhluta Úsbekistan í gær. Mótmælendurnir ruddust inn í fangelsi í borginni til að frelsa þaðan 23 pólitíska fanga sem yfirvöld héldu á þeim forsendum að þeir væru íslamskir öfgamenn. Hermenn komu aðvífandi og hófu skothríð á hópinn með þeim afleiðingum að þrír létust og tugir særðust. Herinn umkringdi að lokum um fjögur þúsund mótmælendur sem söfnuðust saman við fangelsið. Fyrr um daginn höfðu þúsundir mótmælenda átt í götubardögum við hermenn bálreiðir yfir meðferð fanganna og létust að minnsta kosti níu mótmælendur í þeim. Fangarnir segja að það sem þeir vilji sé að fá að versla og vinna sína vinnu án þeirra hindrana sem yfirvöld setja upp. Yfirvöld halda því hins vegar fram að mennirnir séu öfgamenn sem beri að stöðva. Úsbekar horfa mjög til nágranna sinna í Kirgisistan sem steyptu forsetanum Azgar Akayev af stóli nýverið í flauelsbyltingu. Leiðtogi mótmælandanna segir engan bilbug á sínum mönnum og þeir muni ekki gefast upp fyrr en fullnaðarsigur er unninn í baráttunni gegn stjórnvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×