Innlent

Umburðarlyndið sprettur upp samhliða hatrinu

Brjánn Jónasson skrifar
Borgarstarfsmenn hreinsuðu upp þrjú svínshöfuð, sex svínslappir, blóðugan Kóran og fleira á lóðinni í Sogamýri, þar sem til stendur að reisa mosku.
Borgarstarfsmenn hreinsuðu upp þrjú svínshöfuð, sex svínslappir, blóðugan Kóran og fleira á lóðinni í Sogamýri, þar sem til stendur að reisa mosku. Fréttablaðið/Vilhelm
Algengt er að svínshöfuð séu notuð til að mótmæla moskum í Svíþjóð. Í samhengi við það sem hefur verið að gerast í Svíþjóð er það því augljós hatursglæpur þegar svínshöfðum, svínslöppum og Kóraninum var komið fyrir á lóð Félags íslenskra múslima í Sogamýrinni nýverið. Þetta segir Klas Borell, prófessor við Jönköping-háskóla í Svíþjóð og sérfræðingur um hatursglæpi.

Borell segir vaxandi fjölda slíkra hatursglæpa í Svíþjóð hafa haft áhugaverða hliðarverkan. Þannig hvetji þessir hatursglæpir umburðarlyndari borgara landsins til að lýsa skoðunum sínum og standa með múslimum.

„Svínshöfuð eru orðin einkenni hatursglæpa sem beinast gegn eigum múslima,“ segir Borell. Niðurstöður rannsóknar sem hann vann meðal múslima í Svíþjóð sýna að fjórir af hverjum tíu söfnuðum hafa orðið fyrir hatursglæpum.

Eins og fjallað hefur verið um í Fréttablaðinu hefur lögreglan lokið rannsókn á því þegar komið var fyrir svínshöfðum, svínslöppum og blóðugu eintaki af Kóraninum á lóð múslima í Sogamýri. Ákærusvið lögreglu fjallar nú um málið.

Svipað atvik kom upp í borginni Trollhättan í Suður-Svíþjóð síðastliðinn miðvikudag. Þá var svínshöfuð skilið eftir við aðalinngang mosku í borginni.

„Okkur er ekki órótt af því að þetta er svín, þetta væri hræðilegt sama hvaða dýr væri um að ræða. Svo breytir engu að þetta sé við mosku, þetta væri ógeðfellt hvar sem er,“ sagði Salim, talsmaður moskunnar, við sænska blaðið Expressen.

Talsmaður lögreglu segir tilvik sem þetta koma upp af og til, oftast þegar jólin nálgist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×