Innlent

Mæling gervitungls skýrir áhyggjur manna af Grindavík og Bláa lóninu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rauði bletturinn er beint norður af Grindavík, með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru inni á rauða svæðinu.
Rauði bletturinn er beint norður af Grindavík, með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru inni á rauða svæðinu. Mynd/Af vef Veðurstofunnar.

Mynd, unnin er úr gögnum frá gervitungli, sýnir rauðan blett á Reykjanesi með fjallið Þorbjörn í miðju. Orkuverið í Svartsengi og Bláa lónið eru einnig inni á rauða svæðinu og byggðin í Grindavík í jaðrinum.

Myndin var birt á heimasíðu Veðurstofunnar síðdegis og táknar svæðið þar sem land hefur risið mest síðustu vikuna. Í fréttatilkynningu Veðurstofunnar segir að landrisið sé líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi. Með öðrum orðum: Það er undir rauða blettinum sem kvika þrýstir líklegast mest á.

Hér er myndin eins og hún er sýnd í fullri stærð á vef Veðurstofunnar. Svarta línan, frá A til B, sýnir prófílinn á myndinni hér fyrir neðan.Mynd/Af vef Veðurstofu Íslands.

Myndin sýnir jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga dagana 18.-24. janúar mældar með InSAR bylgjuvíxlmælingum á myndum frá Sentinel-1 gervitunglinu. Miðja svæðisins þar sem breytingar greinast í myndinni er við fjallið Þorbjörn. Rauði liturinn táknar breytingar yfir 15 millimetra, segir Veðurstofan.

Myndin sýnir breytingar á fjarlægð til gervitungls í millimetrum en fjarlægðarbreytingin tengist bæði landrisi og láréttum færslum jarðskorpunnar. Svarta línan á myndinni fyrir ofan sýnir staðsetningu prófíls sem sýndur er á myndinni hér fyrir neðan. Örvar á myndinni sýna flugstefnu og sjónarhorn gervitungslins. Úrvinnslu gagnanna annaðist Vincent Drouin, jarðeðlisfræðingur hjá ÍSOR.

Prófílmyndin sýnir að landrisið teygir sig yfir um tíu kílómetra breitt svæði.Mynd/Af vef Veðurstofu.

Á prófílnum má sjá að landrisið teygir sig yfir stærra svæði, sem áætla má 10-12 kílómetra breitt, allt vestur frá Eldvörpum og austur að Borgarhrauni og Nátthaga, norðan Ísólfsskála.

Sentinel-1 gervitunglið er á vegum Copernicusaráætlunar Evrópusambandsins, umhverfis- og öryggisvöktunar í Evrópu, sem Ísland er aðili að. Því var skotið á loft árið 2014 en sex Sentinel-gervitungl eru komin á braut umhverfis jörðu. Markmiðið er að þau verði allt að þrjátíu talsins.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.