Enski boltinn

Hvernig væri að einbeita sér að Torres?

Rafa Benitez hefur eðlilega verið spurður mikið að því hvernig hann ætli að stöðva Cristiano Ronaldo þegar kemur að leik Liverpool og Manchester United á sunnudaginn.

Benitez sneri út úr þessum spurningum í samtali við The Sun í dag. "Hver er lykillinn að því að stöðva Ronaldo? Kannski er þetta frekar spurning um hver lykillinn sé að því að stöðva Fernando Torres," sagði Benitez, en spænski framherjinn hefur verið í fantaformi undanfarið líkt og Ronaldo.

"Auðvitað er Ronaldo að spila vel - en það er Torres að gera líka. Samvinna þeirra Torres og Steven Gerrard hefur verið frábær í framlínunni og menn verða að eiga við þá til að ráða við okkur. Torres er að spila mjög vel núna en hann er ungur og á aðeins eftir að verða betri," sagði Benitez.

Torres var keyptur til Liverpool á yfir 20 milljónir punda síðasta sumar en hefur heldur betur skilað sínu og er búinn að skora 27 mörk fyrir þá rauðu í öllum keppnum.

Ronaldo hefur verið enn heitari og er búinn að skora 33 mörk í öllum keppnum fyrir Manchester United, sem er ótrúlegt í ljósi þess að hann spilar ekki sem framherji. Hann hefur skorað gegn öllum liðunum í úrvalsdeildinni nema Chelsea og Liverpool.

Það er því ljóst að sviðsljósið mun beinast að þessum tveimur á páskadag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×